Biden á leið til Ísraels

Antony Blinken utanríkisráðherra tilkynnti í nótt að Joe Biden Bandaríkjaforseti …
Antony Blinken utanríkisráðherra tilkynnti í nótt að Joe Biden Bandaríkjaforseti væri væntanlegur til Ísraels. AFP/Caballero-Reynolds

Joe Biden Bandaríkjaforseti mun ferðast til Ísraels á morgun í kjölfar blóðugrar hryðjuveraárásar Hamas-vígasamtakanna laugardaginn 7. október. Þetta staðfesti Antony Blinken, utanríkisráðherra Bandaríkjanna. 

Biden mun í kjölfarið hitta fleiri leiðtoga, þar á meðal forseta Egyptalands, konung Jórdaníu og forseta palestínsku heimastjórnarinnar.

Blinken fundaði með Benjamin Netanjahú, forsætisráðherra Ísraels, í tæpar átta klukkustundir í gær. Lagði hann þar mikla áherslu á að óbreyttum borgurum yrði hlíft í gagnárásum Ísraelshers á Hamas-liða sem halda sig til á Gasasvæðinu.

Mun árétta stuðning Bandaríkjanna

Klukkan þrjú í nótt að staðartíma tilkynnti Blinken komu Bandaríkjaforseta. Biden, sem hefur heitið fullum stuðningi við Ísrael, stefnir á heimsókn á morgun, miðvikudag.

„Forsetinn mun árétta stuðning Bandaríkjanna við Ísrael og ófrávíkjanlegu skuldbindingu okkar við öryggi ríkisins,“ sagði Blinken.

„Ísrael hefur bæði rétt og skyldu til þess að verja fólkið sitt frá Hamas og öðrum hryðjuverkasamtökum, og koma í veg fyrir frekari árásir,“ bætti ráðherrann við.

Hittir fleiri þjóðarleiðtoga

John Kirby, talsmaður Bandaríkjastjórnar í þjóðaröryggismálum, hefur einnig staðfest heimsókn Bidens til Tel Aviv.

Sagði hann forsetann í kjölfarið heimsækja Jórdaníu, þar sem hann hittir konung landsins Abdullah II, auk þess sem hann mun funda með Mahmud Abbas, forseta palestínsku heimastjórnarinnar, og Abdel Fattah al-Sisi, forseta Egyptalands.

Blinken fundaði með leiðtogunum þremur milli heimsókna til Ísraels í þessari og síðustu viku.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert