Bílalest með hjálpargögn stefnir nú í átt að Rafah-landamærunum, sem skilur að Gasasvæðið og Egyptaland.
Sprengjum hefur rignt yfir Gasasvæðið síðustu daga, eða frá því Hamas-samtökin gerðu fordæmalausa árás á Ísrael 7. október. Þúsundir hafa fallið í átökum Ísraelshers og Hamas síðan þá, flestir óbreyttir borgarar.
Fram að þessu hefur erlendum ríkisborgurum á Gasasvæðinu verið meinaður aðgangur inn í Egyptaland í gegnum Rafah-útgönguleiðina og sömuleiðis hefur mannúðarsamtökum verið meinað að færa íbúum svæðisins nauðsynlegar birgðar.
Íbúar Gasasvæðisins telja ríflega tvær milljónir, og eru þeir að verða uppiskroppa með mat, vatn, eldsneyti og læknagögn, svo eitthvað sé nefnt.
„Við erum komin að landamærunum og erum að bíða eftir næsta skrefi,“ sagði Heba Rashed, sem rekur hjálparsamtökin Mersal.
Fulltrúi Rauða hálfmánans staðfesti einnig að verið væri að undirbúa bílalest sem á að flytja hjálpargögn á Gasasvæðið.
„Við höfum ekki fengið upplýsingar um hvenær við förum yfir, en við höfum verið beðin um að stefna í átt að Rafah,“ sagði fulltrúi Rauða hálfmánans sem vildi ekki láta nafn síns getið.
„Það má segja að við séum nálægt því að komast að samkomulagi sem kveður á um að flytja nauðsynlegar birgðar inn á svæðið og hleypa erlendum ríkisborgurum burt,“ bætti hann við.