Joe Biden Bandaríkjaforseti er kominn til Ísrael í heimsókn þar sem hann hyggst árétta stuðning Bandaríkjanna.
Flugvél hans lenti rétt fyrir klukkan ellefu að staðartíma, eða rétt fyrir klukkan átta að íslenskum tíma, á Ben Gurion-flugvellinum í Tel Aviv.
Benjamin Netanyahu, forsætisráðherra Ísrael, tók á móti forsetanum og bauð hann velkominn.
Forsetinn og ráðherrann ræddu stuttlega saman á vellinum og virtist fara vel á milli leiðtoganna.
Hundruð þungvopnaðra lögreglumanna og hermanna standa nú vörð um hótelið í Tel Aviv þar sem leiðtogarnir tveir munu funda.