Milei varar Vesturlönd við sósíalisma

Forseti Argentínu, Javier Milei, segir ríkið ekki vera lausnina heldur …
Forseti Argentínu, Javier Milei, segir ríkið ekki vera lausnina heldur vandamálið. AFP/Fabrice Coffrini

Javier Milei, forseti Argentínu, segir sósíalískar hugmyndir ógna Vesturlöndum og að hinn frjálsi markaður sé eina lausnin gegn fátækt í heiminum. 

Þessi orð lét hann falla á heimsviðskiptaráðstefnunni í Davos sem haldin er um þessar mundir. 

Vesturlönd í hættu

„Ég er hér til þess að segja ykkur að Vesturlöndin eru í hættu,“ sagði Milei á ráðstefnunni í sinni fyrstu opinberu utanlandsferð sem forseti. 

Þá hampaði hann hinum frjálsa markaði og sagði hann vera einu lausnina við fátækt í heiminum. Í kjölfarið skaut hann föstum skotum á „öfgakenndan femínisma“, þungunarrof og pólitískan rétttrúnað. 

Hetjurnar viðskiptajöfrarnir

Að lokum lofaði Milei viðskiptajöfra sem hetjur og sagði þá eigi þurfa að óttast álit stjórnmálastéttarinnar og „sníkjudýranna sem lifa á kostnað ríkisins“.

„Ríkið er ekki lausnin. Ríkið er vandinn,“ sagði hann og endaði ræðuna á vígorðum sínum: „Lengi lifi frelsið, andskotinn!“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert