Helmingur herbúnaðar berst of seint

Volodimír Selenskí segir að Úkraínuher muni hafa milljón dróna á …
Volodimír Selenskí segir að Úkraínuher muni hafa milljón dróna á sínum snærum á komandi ári. AFP/Skrifstofa Úkraínuforseta

Helmingur hernaðaraðstoðar frá Vesturlöndum til Úkraínu berst ekki í tæka tíð að sögn Rustem Umerov, varnarmálaráðherra Úkraínu.

Úkraínumenn standa frammi fyrir skorti á herbúnaði en þeir hafa mánuðum saman bent á að seinagangur vestrænna ríkja á að veita aðstoð hafi verulegar afleiðingar í stríðinu gegn Rússum.

„Eins og stendur felur skuldbinding ekki í sér afhendingu,“ sagði varnarmálaráðherrann við athöfn sem haldin var vegna þess að tvö ár eru liðin frá innrás Rússa í Úkraínu.

„Fimmtíu prósent skuldbindinga eru ekki afhentar á réttum tíma,“ bætti hann við og sagði þetta setja Úkraínu í verri stöðu.

Missa fólk og landsvæði

Sagði hann einnig að afhendingardráttur þýddi það að Úkraína myndi missa fólk og landsvæði, sérstaklega í ljósi yfirburða Rússa í lofti.

„Við gerum allt sem mögulegt er og ómögulegt en án tímanlegrar afhendingar verðum við fyrir skaða.“

Úkraína hefur undanfarnar vikur staðið frammi fyrir skorti á skotfærum en tafir hafa orðið á aðstoð frá Bandaríkjunum sökum pólitískra deilna á Bandaríkjaþingi.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert