Ísraelar réðust inn í Rafah á skriðdrekum

Þúsundir hafa flúið Rafah-borg í kjölfar árása Ísraelshers.
Þúsundir hafa flúið Rafah-borg í kjölfar árása Ísraelshers. AFP/Bashar Taleb

Ísraelskir skriðdrekar réðust inn í hjarta Rafah–borgar á Gasa í dag þrátt fyrir þá miklu reiði sem ríkir í alþjóðasamfélaginu í kjölfar loftárásar Ísraelshers á borgina á sunnudaginn. 

Skriðdrekarnir voru „staðsettir á Al–Awda hringtorginu í miðborg Rafah,“ sagði vitni í samtali við AFP fréttastofu sem fékk innrásina staðfesta frá palestínskum heimildamanni. 

Samkvæmt tilkynningu frá almannavarnarstofnun Gasa hafa að minnsta kosti 21 látið lífið eftir sprengju- og skotárásir Ísraelshers á borgina í dag. Hundruð manns hafa flúið Rafah síðustu daga og að sögn Flótta­manna­hjálpar Sam­einuðu þjóðanna í Palestínu, UN­RWA, hef­ur um ein millj­ón óbreyttra borg­ara flúið Rafah frá upp­hafi árás­ar Ísra­els­hers á borg­ina fyrr í mánuðinum. 

45 manns létu lífið 

Fjörutíu og fimm manns létu lífið í loftárásinni á sunnudag. Var árásin gerð á afmarkað mannúðarsvæði þar sem flóttafólk dvaldi í tjöldum. Auk þeirra sem létu lífið lágu hundruð óbreyttra borgara í sárum sínum eftir árásina. 

Myndir af kulnuðu blóðbaðinu, svörtum líkum og börnum sem í skyndi voru flutt á sjúkrahús urðu til þess að Antonio Guterres, fram­kvæmda­stjóri Sam­einuðu þjóðanna, lýsti því yfir að „enginn staður á Gasa væri öruggur“. Þessum hryllingi yrði að linna.

Palestínsk fjölskylda flýr Rafah með eigur sínar á asnakerru.
Palestínsk fjölskylda flýr Rafah með eigur sínar á asnakerru. AFP/Bashar Taleb

Sprengjum rigndi yfir Gasa 

Benja­mín Net­anja­hú, for­sæt­is­ráðherra Ísra­els, sagði loftárásirnar hafa verið „hörmulegt slys,“ en hét því að halda áfram hernaðaraðgerðum til að útrýma Hamas vegna árásarinnar þann 7. október, auk þess að koma öllum gíslunum heim. 

Fleiri loft- og sprengiárásum rigndi yfir Gasa í nótt. Þar á meðal á Tal Al–Sultan svæðið í Rafah, þar sem flóttamannabúðir stóðu í ljósum logum í grennd við aðsetur UNRWA.

Ein milljón óbreyttra borgara hafa flúið Rafah

„Ástandið er mjög hættulegt,“ sagði Faten Jouda, 30 ára íbúi á svæðinu. „Við sváfum ekkert alla nóttina. Það komu sprengjur úr öllum áttum,“ sagði hann og lýsti meðal annars stórskotaliðsárás, loftárás og sprengiárás úr flugvélum. 

„Við sáum alla flýja á ný,“ sagði hún í samtali við APF. „Við munum líka fara núna og halda til Al–Mawasi vegna þess að við óttumst um líf okkar,“ sagði hún en um er að ræða nærliggjandi strandsvæði sem Ísrael hefur lýst sem öruggu „mannúðarsvæði“.

Samkvæmt upplýsingum frá UNRWA hafa um ein milljón óbreyttra borgara flúið Rafah síðan Ísrael hóf árás sína á borgina í byrjun maí þrátt fyrir fjölda alþjóðlegra viðvarana.

Einhverjir halda til Al–Mawasi, nærliggjandi strandsvæði sem Ísrael hefur lýst …
Einhverjir halda til Al–Mawasi, nærliggjandi strandsvæði sem Ísrael hefur lýst sem öruggu „mannúðarsvæði“. AFP/Bashar Taleb
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert