Trump: „Ég var skotinn“

Trump stakk hnefanum í loftið eftir að hann reis á …
Trump stakk hnefanum í loftið eftir að hann reis á fætur. AFP

Í færslu á samfélagsmiðli sínum Truth Social skrifar Donald Trump að hann hafi verið „skotinn með byssukúlu sem rauf efri hluta hægra eyrans á mér“.

Skot­um var hleypt af á kosn­inga­fundi Don­alds Trumps í Penn­sylvan­íu í Banda­ríkj­un­um fyrr í kvöld. Trump kveðst heill á húfi þó byssukúlan hafi farið í gegnum eyrað hans.

Eyra Donalds Trumps blæðir.
Eyra Donalds Trumps blæðir. AFP

Þakklæti efst í huga

Einn gest­ur á fund­in­um lést í árásinni, sam­kvæmt frétta­fluttn­ingi vest­an­hafs. Þá var meint­ur árás­armaður felldur. Auk­in­held­ur er einn sagðir al­var­lega særður.

„Ég vil þakka bandarísku öryggisþjónustunni, og löggæslunni allri, fyrir skjót viðbrögð við skotárásinni sem átti sér stað í Butler í Pennsylvaníu. Síðast en ekki síst vil ég votta fjölskyldu þess sem lést á fundinu samúð mína og einnig fjölskyldu annars sem særðist illa,“ skrifar Trump.

„GUÐ BLESSI BANDARÍKIN!“

„Það er ótrúlegt að slíkt geti átt sér stað í okkar landi. Ekkert er vitað um skotárásarmanninn sem er nú látinn. Ég var skotinn með byssukúlu sem rauf efri hluta hægra eyrans á mér,“ bætir hann við.

„Ég vissi strax að eitthvað var að því að ég heyrði hvisshljóð, skothvelli og fann strax að skotið reif í gegnum húðina. Það blæddi mikið, þannig að ég áttaði mig á því hvað var að gerast.“

Hann bætti við í hástöfum: „GUÐ BLESSI BANDARÍKIN!“

Mætir á landsfund á mánudag

Þrátt fyrir að Trump hafi særst í árásinni hyggst hann mæta á landsfund Repúblikana

„Trump forseti hlakkar til að taka þátt í fundinum með ykkur í Milwaukee þegar við tilnefnum hann sem frambjóðanda til 47. forseta Bandaríkjanna,“ segir í yfirlýsingu frá kosningateymi Trumps.

Trump á enn eftir að tilkynna um varaforsetaefni en hann þarf að gera það fyrir landsfundinn.

Fréttin hefur verið uppfærð.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert