Í færslu á samfélagsmiðli sínum Truth Social skrifar Donald Trump að hann hafi verið „skotinn með byssukúlu sem rauf efri hluta hægra eyrans á mér“.
Skotum var hleypt af á kosningafundi Donalds Trumps í Pennsylvaníu í Bandaríkjunum fyrr í kvöld. Trump kveðst heill á húfi þó byssukúlan hafi farið í gegnum eyrað hans.
Einn gestur á fundinum lést í árásinni, samkvæmt fréttafluttningi vestanhafs. Þá var meintur árásarmaður felldur. Aukinheldur er einn sagðir alvarlega særður.
„Ég vil þakka bandarísku öryggisþjónustunni, og löggæslunni allri, fyrir skjót viðbrögð við skotárásinni sem átti sér stað í Butler í Pennsylvaníu. Síðast en ekki síst vil ég votta fjölskyldu þess sem lést á fundinu samúð mína og einnig fjölskyldu annars sem særðist illa,“ skrifar Trump.
„Það er ótrúlegt að slíkt geti átt sér stað í okkar landi. Ekkert er vitað um skotárásarmanninn sem er nú látinn. Ég var skotinn með byssukúlu sem rauf efri hluta hægra eyrans á mér,“ bætir hann við.
„Ég vissi strax að eitthvað var að því að ég heyrði hvisshljóð, skothvelli og fann strax að skotið reif í gegnum húðina. Það blæddi mikið, þannig að ég áttaði mig á því hvað var að gerast.“
Hann bætti við í hástöfum: „GUÐ BLESSI BANDARÍKIN!“
Þrátt fyrir að Trump hafi særst í árásinni hyggst hann mæta á landsfund Repúblikana
„Trump forseti hlakkar til að taka þátt í fundinum með ykkur í Milwaukee þegar við tilnefnum hann sem frambjóðanda til 47. forseta Bandaríkjanna,“ segir í yfirlýsingu frá kosningateymi Trumps.
Trump á enn eftir að tilkynna um varaforsetaefni en hann þarf að gera það fyrir landsfundinn.
Fréttin hefur verið uppfærð.