Hamas hafnar nýjum skilyrðum fyrir vopnahléi

Úr borginn Deir al-Balah á Gasa ströndinni.
Úr borginn Deir al-Balah á Gasa ströndinni. AFP/Bashar Taleb

Hryðjuverkasamtökin Hamas hafa hafnað nýjum skilyrðum sem sett voru fram í vopnahléssamningi. Samningurinn var lagður fram af Bandaríkjunum eftir viðræður við ísraelska samningamenn í Katar.

Hamas hafnar skilyrðunum þrátt fyrir aukinn alþjóðlegan þrýsting um vopnahlé eftir meira en tíu mánaða átök milli þeirra og Ísraela. Joe Biden Bandaríkjaforseti hefur sagt að samkomulag sé nær en nokkru sinni fyrr.

Vildu neitunarvald

Bandaríkin ásamt evrópskum bandamönnum hafa þrýst á samkomulag um vopnahlé síðan Ismail Haniyeh leiðtogi Hamas var myrtur í Íran 31. júlí. Ísrael er sakað um að hafa skipulagt morðið. 

Tilraunir undir forystu egypskra, katarskra og bandarískra milligöngumanna hafa miðað að því að ljúka samningum um vopnahlé, sem upphaflega voru lagðir til af Biden í maí, en samningar hafa enn ekki náðst.

Hamas var á móti nýjustu skilyrðunum sem sögð eru fela í sér að halda ísraelskum hermönnum á Gasa nálægt egypsku landamærunum, veita Ísrael neitunarvald yfir fangaskiptum og möguleika á að til að vísa sumum föngum úr landi frekar en að senda þá aftur til Gasa.

Vaxandi alþjóðleg gagnrýni á Ísrael

Á meðan hefur alþjóðleg gagnrýni á ofbeldi ísraelskra landnema á hernumdu Vesturbakkanum aukist, sérstaklega eftir banvæna árás á palestínskt þorp. Josep Borrell utanríkismálastjóri Evrópusambandsins hefur kallað eftir refsiaðgerðum gegn ísraelskum embættismönnum sem styðja ofbeldi landnema.

Þrátt fyrir áframhaldandi samningaviðræður heldur ofbeldið áfram, þar á meðal loftárásir á Gasa með auknu mannfalli.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert