Hvetja Búlgaríu til að endurskoða ákvörðun sína

Lagabreytingunum hefur verið mótmælt á götum Búlgaríu.
Lagabreytingunum hefur verið mótmælt á götum Búlgaríu. AFP

Sameinuðu þjóðirnar segjast mjög áhyggjufullar eftir að búlgarska þingið samþykkti breytingu á menntalögum sínum sem banna LGBTQ „áróður” í skólum. Nýju lögin banna „áróður, kynningu eða hvatningu á nokkurn hátt, í menntakerfinu, á hugmyndum og skoðunum sem tengjast óhefðbundinni kynhneigð og/eða annarri kynvitund en þeirri líffræðilegu“.

Lögin voru samþykkt 7. ágúst og hefur þeim verið mótmælt af íbúum landsins. Mannréttindaráð Sameinuðu þjóðanna hefur nú hvatt Búlgaríu til að endurskoða ákvörðun sína.

Íbúar Búlgaríu hafa mótmælt lögunum.
Íbúar Búlgaríu hafa mótmælt lögunum. AFP/Nikolay Doychinov

„Við höfum miklar áhyggjur af undirritun lagabreytingar í Búlgaríu sem bannar orðræðu um kynhneigð og kynvitund í skólum og hvetjum til þess að hún verði endurskoðuð í samræmi við alþjóðlegar mannréttindaskuldbindingar landsins,“ sagði talsmaður Sameinuðu þjóðanna, Elizabeth Throssell, í dag.

Sagði hún enn fremur að mikilvægt væri að takast á við fordóma til að stuðla að viðurkenningu og umburðarlyndi og byggja upp samfélög sem virða og halda uppi mannréttindum allra.

Tók Throssel þá fram að lagabreytingin myndi aðeins ýta undir mannréttindabrot gegn hinseginfólki, sem og einelti og áreitni í skólum.

Stangast á við stjórnarskrá landsins

Lagabreytingarnar væru einnig í andstöðu við stjórnarskrá landsins og skuldbindingar þess í alþjóðlegum mannréttindasáttmálum um að tryggja jafnrétti, bann við mismunun og tjáningarfrelsi.

„Það er mikilvægt að búlgörsk yfirvöld grípi til brýnna ráðstafana til að koma í veg fyrir, og berjast gegn, ofbeldi, mismunun og einelti, sérstaklega gegn LGBTQ ungmennum og innan menntakerfisins.“

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert