Handtóku mann í 46 ára gömlu máli

Ástralska lögreglan. Mynd úr safni
Ástralska lögreglan. Mynd úr safni AFP

65 ára karlmaður hefur verið handtekinn í Róm vegna morðs á tveimur konum á heimili þeirra í Melbourne í Ástralíu árið 1977. Ástralska lögreglan tilkynnti þetta í dag.

Lík Suzanne Armstrong, sem var 27 ára, og Susan Bartlett, sem var 28 ára, fundust í húsi þeirra við Easey Street í Melbourne 13. janúar 1977, en þær höfðu báðar verið stungnar ítrekað.

Rannsóknir leiddu í ljós að Armstrong hafði verið nauðgað á vettvangi en 16 mánaða gamall sonur hennar fannst ómeiddur í húsinu.

Þegar líkfundurinn varð höfðu liðið þrír dagar síðan konurnar sáust síðast.

Hræðilegt manndráp

„Þetta var algerlega hræðilegt manndráp – margar hnífstungur,“ sagði Shane Patton, lögreglustjóri í Victoria-fylki, á blaðamannafundi í dag.

Hinn grunaði, sem er grísk-ástralskur ríkisborgari, hafði búið í Grikklandi þar sem hann var verndaður af fyrningarlögum landsins, sagði Patton en yfirlögregluþjónn bætti við að beðið hefði verið eftir því að maðurinn myndi yfirgefa landið.

Hann yfirgaf landið loks á fimmtudaginn og var handtekinn við komu til Ítalíu samkvæmt fyrirmælum Interpol en Ástralir munu þegar í stað hefja framsalsferli.

Tækniframförum að þakka

Á blaðamannafundinum vildi lögregla ekki gefa neitt upp um hvað leiddi til handtöku mannsins annað en „tækniframfarir“.

Ástralski fréttamiðillinn The Age hefur hins vegar haldið því fram að lögregla hafi ákveðið að prófa DNA úr öllum þeim mönnum sem nefndir voru í upprunalegu lögregluskýrslunni. Lögreglan hefur ekki staðfest þetta.

Málið hefur lengi vel verið helsta óupplýsta mál í ástralska réttarkerfinu en árið 2017 buðu lögregluyfirvöld þar í landi eina milljón ástralskra dollara, sem jafngildir um 92 milljónum íslenskra króna, í verðlaun til hvers þess sem gæti veitt upplýsingar sem myndu leiða til handtöku í málinu.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert