Gamlar dagbækur kveikja dómsmáls

Ein dagbókanna þriggja sem nú hafa orðið tilefni fimm refsidóma …
Ein dagbókanna þriggja sem nú hafa orðið tilefni fimm refsidóma í Vestur-Noregi. Ljósmynd/Úr einkasafni

Fimm menn í Vestur-Noregi hafa hlotið dóma sem byggðir eru á frásögnum í dagbókum konu á atburðum sem gerðust fyrir tuttugu árum og snúast um kynferðislega misnotkun þegar hún var barn að aldri. Fundust dagbækurnar nýverið á heimili móður konunnar við flutninga.

Viðurkenndu tveir mannanna brot sín, en hinir þrír voru dæmdir sekir þar sem dagbókarfærslur með nöfnum og dagsetningum þóttu færa sönnur á brot þeirra með óyggjandi hætti. Hlutu þeir þrír sem ekki játuðu 90 daga fangelsisdóm hver – vegna þess hve langt var um liðið frá brotunum – auk þess sem þeim var gert að greiða konunni 50.000 norskar krónur í skaðabætur hverjum, jafnvirði um 640.000 íslenskra króna.

Ákvað að hafa samband við lögreglu

„Fórnarlambið var fimmtán ára þegar misnotkunin átti sér stað og á þeim tíma gerði hún sér ekki grein fyrir því að það er refsivert að hafa kynmök við börn undir sextán ára aldri,“ segir Hege Salomon, sem er réttargæslulögmaður konunnar, við norska rikisútvarpið NRK.

Eftir að hafa þegið ráðgjöf frá Nok.-miðstöðinni, samtökum sem aðstoða konur sem orðið hafa fyrir kynferðislegri misnotkun eða annars konar árásum, ákvað konan að hafa samband við lögreglu og útvega sér lögmann.

Salomon segir skjólstæðing sinn hafa liðið andlega eftir það sem gerðist og bætir því við aðspurð að konur hiki oft við að stíga fram og segja frá kynferðislegri misnotkun – oft finni þær fyrir skömm auk þess sem þær óttist oftar en ekki að þeim verði ekki trúað.

NRK

TV2

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert