Vladimír Pútín Rússlandsforseti, hefur reynt allt til að koma í veg fyrir aðra herkvaðningu í Rússlandi. Í þeirri viðleitni hefur hann notast við fanga, málaliða, hermenn frá Mið-Asíu og Norður-Kóreska til að koma í veg fyrir það.
Valur Gunnarsson, sagnfræðingur og sérfræðingur í málefnum Úkraínustríðsins, segir að þótt Pútín hafi unnið áróðursstríðið heimafyrir veit hann af því að ástandið er viðkvæmt og að önnur herútkvaðning gæti breytt afstöðu heimamanna til stríðsins.
„Meirihluti þjóðarinnar virðist vera reiðubúinn til að fylgja Pútín. Hann veit samt að hann er viðkvæmur þarna og hann hefur t.d. forðast að vera með aðra almenna herkvaðningu líkt og hann var með haustið 2022. Því hann veit að þá fara Rússar að finna fyrir stríðinu á eigin skinni. Hann er því búinn að senda fanga, innflytjendur frá Mið-Asíuríkjum og nú Kóreumenn. Hann vill í raun forðast það að vera með almenna herútkvaðningu þannig að millistéttarstrákar frá Moskvu og Pétursborg yrðu sendir á víglínuna. Þá veit hann að hann gæti verið í vanda heima fyrir,“ segir Valur.
Hann segir ljóst að einhvers konar stigmögnun hafi orðið á stríðinu þegar hermenn N-Kóreu tóku þátt í stríðinu. Hann segir þó að Pútín hafi reglulega hótað stigmögnun sem gjarnan er í formi beitingu kjarnavopna. Það sýni þó á sama tíma vanmátt hans.
„Allt tal um stigmögnun snýr í raun að því að Rússar geti gert eitthvað annað en þeir hafa gert nú þegar en þeir geta það ekki. Það væri hægt með annarri herútkvaðningu eða með beitingu kjarnavopna sem hann er mjög sennilega ekki að fara að gera. Stríðið er búið að vera á fullu frá fyrsta degi. Það að Úkraínumenn séu með langdrægar flaugar til jafns við Rússa, er varla stigmögnun,“ segir Valur.
Hann segist hafa meiri áhyggjur af annars konar stigmögnun. Suður-Kóreumenn hafa sent vopn til Úkraínu t.a.m. þá sé alls óvíst hvernig Donald Trump muni nálgast aðkomu Bandaríkjamanna að heimsmálunum. Bandaríkin gætu rambað í stríð við Íran auk þess sem tal um 100% verndartolla gagnvart Kína gæti leitt til þess að Kínverjar freistist þess að ráðast á Taívan.
„Maður óttast að Úkraínustríðið sé eins og Spánarstríðið var. Fyrirboði þess sem koma skildi. Þar sem lýðræðisríkjum mistókst að stöðva einræðisríkin í tæka tíð,“ segir Valur.