Jörðin hefur undanfarna daga verið að fara í gegnum belti loftsteina sem nefndir eru leónítar. Á um 33ja ára fresti nær lofsteinaregnið hámarki en regnið er samansett af ögnum úr halastjörnunni Tempel-Tuttle. Hefur loftsteinaregnið verið sýnilegt nokkra daga í nóvember síðustu þrjú ár en náði hámarki í ár. Sigurður Kristinsson, bóndi á Skarði við Breiðdalsvík, sá tvívegis loftsteinaregn í gær og þótti mikið til koma. Hann fór ásamt fjölskyldu sinni út um fimmleytið í gær til að athuga hvort þau sæju leónítana. "Ég varð eiginlega orðlaus þegar ég sá fyrsta alvöru stjörnuhrapið því þetta var eins og það væri verið að skjóta á loft flugeldum," segir Sigurður.
Hann segist hafa séð um tíu leiftur á um hálfri klukkustund. Sigurður fór svo aftur út um miðnætti og sá þá fjögur eða fimm leiftur og „eitt ansi skemmtilegt. Það fór vel yfir hálfan himininn frá norðaustri til suðvesturs," segir hann. Loftsteinaregnið sem Sigurður sá fyrr um daginn kom úr norðri og fór til suðurs og alveg upp á háhimininn. Sindraði rauðu og hvítu frá bláleitri kúlu sem skaust yfir himininn Þegar Sigurður fór út í fyrra skiptið sá hann stjörnuhrap sem gerði hann nánast orðlausan. „Ég ætlaði að láta hina vita en ég varð bara orðlaus, ég hélt að það væri verið að skjóta flugeldum," sagði Sigurður sem fór að líta eftir loftsteinaregninu ásamt eiginkonu sinni og sonarsyni. Hann segist hafa séð bláleita kúlu skjótast yfir himininn og frá henni hafi sindrað rauðum og hvítum bjarma. Sigurður segist ekki hafa séð neitt þessu líkt. Hann segist nokkrum sinnum hafa séð glóandi hnetti sem hafi sprungið. Lofsteinaregnið sést líkt og björt stjörnuhröp, oft bláleit. Jörðin fer á hverju ári í gegnum loftsteinabelti sem er í raun slóð eftir halastjörnu. Það tekur halastjörnuna 33 ár að fara í kringum sólu og henni fylgir þá miklu þéttari sveimur af ryki og steinum, segir Þorsteinn Sæmundsson, stjarnfræðingur á Raunvísindastofnun Háskóla Íslands. Stutt er síðan halastjarnan fór framhjá sólu og núna er jörðin að fara í gegnum þann hluta slóðarinnar sem er næstur halastjörnunni. Loftsteinabeltið er sporöskjulöguð braut í kringum sólu og á ári hverju mætir jörðinni þessi slóð sem samansett er úr smásteinum og rykögnum úr halastjörnunni. Fara agnirnar, sem eru á gífurlegum hraða, inn í gufuhvolf jarðar þar sem þær brenna upp og lýsa feiknalega. Líkt og stjörnurnar séu að hrynja af himninum Þorsteinn segir ekkert af þessu vera svo stóra steina að þeir komi til jarðar og því sé ekkert hættulegt við loftsteinaregnið. Hann segir þetta geta verið stórkostlega sjón og þegar mest hefur sést hefur fólk gjarnan orðið hrætt enda sé líkt og stjörnurnar séu að hrynja af himninum. Þorsteinn segist ekki hafa séð slíkar lýsingar á lofsteinahríð hér á landi þó svo að hann hafi sjálfur oft séð leonítana. Í fyrra var töluvert mikið af loftsteinum og var spáð hámarki núna í ár. Hugsanlegt er að eitthvað sjáist af leónítum á næsta ári en þá verða skilyrði verri vegna tunglbirtu. En líklega sjást leónítarnir ekki aftur fyrr en að þrjátíu árum liðnum. Samkvæmt fyrstu fréttum frá Bandaríkjunum sást býsna mikið af loftsteinum þar á himni, á nokkurra sekúndna fresti. Spáin var þannig að það gætu orðið nokkrir loftsteinar á sekúndu og er þá líkt og um rigningu sé að ræða. Ísland var ekki sérlega vel staðsett í ár til að unnt væri að sjá loftsteina en best sást til þeirra á Kyrrahafssvæðinu. Í gærmorgun, að íslenskum tíma, sáust um 1.200 loftsteinar á klukkustund á Hawaii, segir Þorsteinn, en hefði átt að vera ennþá meira í gærkvöldi samkvæmt spánni.