Fimmtán ára drengur viðurkennir alvarlegt gabb í Ólafsvík

Mikill viðbúnaður var við höfnina á Ólafsvík í dag.
Mikill viðbúnaður var við höfnina á Ólafsvík í dag. mbl.is/Alfons

Hringt var í Neyðarlínuna klukkan rúmlega sex í kvöld og tilkynnt um að maður hefði fallið í höfnina í Ólafsvík. Hringt var úr neyðarsíma við höfnina en eftir að lögregla, björgunarsveitarmann, kafarar og læknir voru komnir á staðinn kom í ljós að um gabb var að ræða. Fimmtán ára drengur hefur viðurkennt að hafa hringt.

"Þetta var mjög alvarlegt gabb, en við náðum þeim seka," sagði Lárus Einarsson lögreglumaður í Ólafsvík í samtali við Fréttavef Morgunblaðsins. Hringt var í neyðarlínuna úr neyðarsíma við höfnina og lögreglan fékk útkall kl. 18.15. "Þetta er ekki stórt pláss og þegar við vorum á leiðinni niður eftir sáum við nokkra krakka hlaupa frá bryggjunni og hverfa á bak við Olís-sjoppuna," sagði Lárus Einarsson. Lögreglu þótti þetta grunsamlegt, en þrátt fyrir það var vitaskuld unnið samkvæmt því að tilkynningin ætti við rök að styðjast. Eftir að lögregla hafði kannað vettvang, og björgunarsveitarmenn og fleiri höfðu hafið leit kannaði lögreglan hvort hugsanlega væri um gabb að ræða og kom þá í ljós að svo var. "Fimmtán ára drengur, aðkomumaður sem er staðsettur hér hjá ömmu sinni, viðurkenndi að hafa hringt og hafði ekkert sér til málsbóta." Allt tiltækt björgunarlið var komið að höfninni þegar í ljós kom að um gabb var að ræða, byrjað var að leita ofan frá en ekki byrjað að kafa.
mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka