Garðstyttum hnuplað úr görðum Selfyssinga

ef einhver á Selfossi saknar 30 sentimetra garðstyttu af strák með hjólbörur eða um 40 sentimetra hárrar styttu af lítilli stúlku í pilsi, er sá hinn sami vinsamlegast beðinn um að hafa samband við lögregluna á Selfossi.

Stytturnar eru meðal þess sem fannst á heimili unglingspilts í bænum en hann hefur viðurkennt að hafa hnuplað þeim úr görðum bæjarbúa. Málið telst að mestu upplýst, þó líkur séu á að fleiri séu viðriðnir málið enda sumar stytturnar býsna þungar.

Að sögn lögreglunnar á Selfossi bárust tilkynningar um stuld á fjórum garðstyttum hinn 29. nóvember og leiddi rannsókn til þess að stytturnar fundust á heimili piltsins í síðustu viku. Reyndar voru stytturnar sjö talsins en eigendur fimm þeirra hafa náð í þær á lögreglustöðinni. Eftir eru tvær styttur sem enginn hefur vitjað. Stytturnar sjö eru af ýmsum toga, ein er t.d. af ljóni en önnur af hundi. Hundastyttan var þyngst, eða um 25-30 kíló að mati lögreglunnar.

Pilturinn mun hafa gefið þær skýringar á hegðun sinni að um hrekkjabragð hafi verið að ræða og hann mun hafa verið undir áhrifum áfengis í einhverjum tilvikum.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert