Flugkennari og nemi brenndust og hlutu beinbrot er flugvél þeirra af gerðinni Cessna 152 brotlenti í fjallshlíð í Hvalfirði í kvöld. Eldur kviknaði í vélinni eftir að hún lenti rétt ofan við bæinn Eystra-Miðfell, upp undir fjallshlíð. Annar mannanna gekk niður fjallið og niður á veg þar sem stöðvaði bíl og fékk þannig hjálp. Bóndinn á bænum sótti hinn manninn upp í hlíðina og bar niður á veg. Verið er að flytja mennina tvo með sjúkrabíl til Reykjavíkur. Að sögn lögreglu virðast þeir hafa sloppið betur vel miðað við aðstæður. Eldur logar enn í brakinu.
Vélin var á leið frá Stóra-Kroppi til Reykjavíkur þegar slysið varð. Þegar mennirnir höfðu ekki skilað sér á réttum tíma var hafin leit að vélinni kl. 22:15. Flugvélar á leið yfir hafið voru beðnar að hlusta eftir neyðarsendi vélarinnar en ekkert heyrðist frá honum, að sögn Heimis Más Péturssonar, hjá Flugmálastjórn. Kl. 22:53 kom annar maðurinn upp á þjóðveg við bæinn Eystra-Miðfell, norður af Guðmundartanga, og stöðvaði þar bíl.
Ekki er vitað nánar um meiðsl mannanna en að sögn lögreglu virðast þeir í fyrstu hafa sloppið vel frá slysinu. Dimmt var og éljagangur þegar slysið varð.
Mennirnir tveir fóru í loftið kl. 18:15 frá Reykjavík. Vegna veðurs var ekki unnt að fljúga vélinni til Reykjavíkur og því lenti hún á Stóra-Kroppi kl. 19:15. Mennirnir létu vita af sér þegar þeir voru aftur komnir í loftið og hafði þá veðrið aðeins skánað. Vél frá Flugfélagi Íslands var beðin að kalla í mennina kl. 22:10 en ekkert svar barst. Þá var hafin full leit að mönnunum og kölluð var út björgunarsveit Landsbjargar og TF-SIF. Læknir var kominn á staðinn og sjúkrabíll. Bóndinn á bænum Eystra-Miðfell bar annan mannanna niður fjallshlíðina. Læknirinn mat það svo að unnt væri að flytja mennina með sjúkrabíl til Reykjavíkur og því var þyrlan afturkölluð.