Tveir menn komust lífs með ótrúlegum hætti úr flugslysi seint í gærkvöld þegar tveggja sæta flugvél af gerðinni Cessna 152 brotlenti á Miðfjallsmúla á Hvalfjarðarströnd í um 100 m hæð. Samkvæmt upplýsingum blaðsins var vélin að fljúga í éli þegar hún skall í jörðina. Þegar mennirnir rönkuðu við sér lágu þeir við hliðina á brennandi flakinu.
Um borð voru flugkennari og nemandi og þeim var bjargað af bónda af nálægum bæ. Annar þeirra er talinn fótbrotinn og brenndur og gat sig hvergi hreyft en félagi hans slasaðist minna.Voru þeir fluttir með sjúkrabifreiðum á slysadeild.
Fyrstur á vettvang var Jón Valgarðsson, bóndi á Eystra-Miðfelli, og er ljóst að hann átti stærstan þátt í giftusamlegri björgun mannanna. Hann fór upp í fjallið og kom að öðrum flugmanninum liggjandi aðeins 10 metrum frá flakinu og bar hann 50 metra niður fjallshlíðina að bíl sínum. Var flugmaðurinn þá orðinn mjög kaldur og illa haldinn vegna meiðsla. Hinn manninn hafði Jón ekið fram á skömmu áður og tók hann einnig í bíl sinn.
Jón frétti fyrst af slysinu frá systur sinni sem séð hafði torkennilegan eld í fjallshlíðinni og fór hann strax af stað til kanna málið. "Ég sá strax hvað þetta var og þegar nær dró mætti ég öðrum manninum á gangi," sagði Jón. "Ég tók hann strax upp í bílinn og hann sagði mér frá slösuðum félaga sínum. Ég hélt því áfram og komst inn undir flakið. Ég stökk út og sá hinn slasaða og kom honum inn í bíl. Hann var meiddur á fæti og mjöðm, brenndur á höndum og fötin hans brennd. Hann lá í snjónum og var orðinn mjög kaldur og ég sá að vænlegast væri að ná honum inn í heitan bílinn." Jón sagði hinn slasaða hafa orðið fegnari en orð fá lýst þegar hjálpin barst og endir þar með bundinn á ömurlega vist hans við flugvélaflakið. Jón bar manninnað bílnum niður hlíðina í hálku og erfiðu færi og gat hinn slasaði hjálpað til með heila fætinum. "Þetta tókst hjá okkur, en mennirnir voru báðir orðnir mjög illa haldnir af kulda," sagði Jón.
Hann telur að mennirnir hafi verið við brennandi flakið í um eina og hálfa klukkustund og var það ekki fyrr en þeir sáu bílljósin frá Jóni að annar þeirra freistaði þess að ganga til móts við hann. "Þetta var mikil lífsreynsla, en maður er feginn þegar vel tekst til," sagði Jón. "Ég bara skil ekki hvernig mennirnir sluppu lifandi frá þessu slysi."