Tveir karlmenn voru staðnir að stórfelldu kókaínsmygli er þeir reyndu að smygla tæpum 400 grömmum af kókaíni til landsins í gegnum Leifsstöð á þriðjudag. Þeir voru meðal farþega frá Amsterdam og höfðu falið efnin í 12 smokkum í endaþarmi. Hvor þeirra var með tæp 200 grömm af kókaíni. Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli hefur ekki oft áður lagt hald á jafnmikið af kókaíni í einu lagi hjá smyglurum sem reyna þessa aðferð.
Mennirnir voru enn fremur með tollskyldan hnefaleikabúnað að verðmæti á milli 300-400 þúsund krónur, sem einungis hafði verið greitt af að hluta. Tollgæslan lagði því hald á varninginn.
Mennirnir hafa báðir viðurkennt vörslu kókaínsins og telst málið upplýst að mestu. Ekki var þörf á að krefjast gæsluvarðhalds yfir þeim en mál þeirra verður tekið fyrir hjá ákæruvaldinu að lokinni lögreglurannsókn hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli.
Við rannsókn málsins hefur lögreglan haft tal af forsvarsmönnum viðkomandi hnefaleikafélaga við að reyna að upplýsa meint tollalagabrot mannanna.