Staðnir að stórfelldu kókaínsmygli

Tveir karlmenn voru staðnir að stórfelldu kókaínsmygli er þeir reyndu að smygla tæpum 400 grömmum af kókaíni til landsins í gegnum Leifsstöð á þriðjudag. Þeir voru meðal farþega frá Amsterdam og höfðu falið efnin í 12 smokkum í endaþarmi. Hvor þeirra var með tæp 200 grömm af kókaíni. Tollgæslan á Keflavíkurflugvelli hefur ekki oft áður lagt hald á jafnmikið af kókaíni í einu lagi hjá smyglurum sem reyna þessa aðferð.

Mennirnir voru enn fremur með tollskyldan hnefaleikabúnað að verðmæti á milli 300-400 þúsund krónur, sem einungis hafði verið greitt af að hluta. Tollgæslan lagði því hald á varninginn.

Tengjast hnefaleikafélögum

Hinir grunuðu tengjast sínu hnefaleikafélaginu hvor og er annar þeirra þjálfari í fullu starfi. Við komuna voru þeir klæddir áberandi íþróttafötum, merktir Íslandi með íslenskum fánum. Að sögn Jóhanns R. Benediktssonar, sýslumanns á Keflavíkurflugvelli, hlýtur að teljast áhyggjuefni að íþróttamenn svo kirfilega merktir sem slíkir skuli verða uppvísir að svo stórfelldu smygli á hörðum fíkniefnum. Að iðka slíka glæpastarfsemi undir þessu yfirvarpi hljóti bæði að gera íþróttamenn á ferðalögum tortryggilega og ekki síður grafa undan trausti foreldra á hnefaleikafélögum sem börn þeirra æfa hjá. Samkvæmt upplýsingum Morgunblaðsins hjá hnefaleikafélögum æfa allt niður í 10-11 ára börn hnefaleika hjá þeim.

Mennirnir hafa báðir viðurkennt vörslu kókaínsins og telst málið upplýst að mestu. Ekki var þörf á að krefjast gæsluvarðhalds yfir þeim en mál þeirra verður tekið fyrir hjá ákæruvaldinu að lokinni lögreglurannsókn hjá lögreglunni á Keflavíkurflugvelli.

Við rannsókn málsins hefur lögreglan haft tal af forsvarsmönnum viðkomandi hnefaleikafélaga við að reyna að upplýsa meint tollalagabrot mannanna.

Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert