Halldór Ásgrímsson, forsætisráðherra, mælti á Alþingi í morgun fyrir frumvarpi um kjaramál kennara og skólastjóra í grunnskólum. Samkvæmt frumvarpinu er verkfall kennara og aðrar aðgerðir óheimil frá gildistöku laganna og á gildistíma ákvarðana gerðardóms sem skipaður verður 15. desember hafi deiluaðilar ekki náð samningum fyrir þann tíma.
Nái aðilar ekki náð samkomulagi um kjarasamning fyrir 15. desember skal Hæstiréttur skipa þrjá menn í gerðardóm sem skal fyrir 31. mars 2005 ákveða kaup og kjör félagsmanna Félags grunnskólakennara og Skólastjórafélags Íslands hjá þeim sveitarfélögum sem eiga aðild að launanefnd sveitarfélaga. Ákvarðanir gerðardómsins skulu vera bindandi sem kjarasamningur á milli aðila frá og með 15. desember 2004 og gilda þann tíma sem gerðardómurinn ákveður. Endanlegt uppgjör launa skal fara fram 30. apríl 2005.
Samkvæmt frumvarpinu skal gerðardómurinn hafa hliðsjón af almennri þróun á vinnumarkaði frá gerð síðasta kjarasamnings deiluaðila að því leyti sem við á. Við ákvarðanir um laun félagsmanna og önnur starfskjör þeirra skal gerðardómurinn einnig hafa hliðsjón af kjörum þeirra sem sambærilegir geta talist að menntun, störfum, vinnutíma og ábyrgð en jafnframt gæta þess að stöðugleika efnahagsmála og forsendum annarra kjarasamninga sé ekki raskað.
Komi aðilar vinnudeilunnar sér saman um einhver efnisatriði í deilunni, án þess að vilja gera um það dómsátt, skal gerðardómurinn taka mið af því við ákvörðun sína en hefur þó frjálsar hendur um tilhögun mála. Gerðardómnum er heimilt að beita sér fyrir samkomulagi eða dómsátt á milli aðila sem hafi sömu réttaráhrif og ákvarðanir gerðardómsins, hvort sem er um einstök ákvæði eða heildarsamning þeirra í milli, og tekur þá gerðardómurinn ekki ákvörðun um þau atriði sem svo háttar til um.
Ríkisstjórnin telur sig ekki geta setið lengur aðgerðarlaus
Halldór sagði, þegar hann mælti fyrir frumvarpinu, að það væri engum vafa undirorpið að ráðstöfun af þessu tagi sé komin til af brýnni nauðsyn og því að mjög ríkir almannahagsmunir séu í húfi. Ríkisstjórnin hefði síst af öllu viljað vera með beina íhlutun í samninga á vinnumarkaði en nú eftir margra vikna verkfall í grunnskólum landsins sé útlitið mjög dökkt og alls ekki ástæða til að ætla að án íhlutunar Alþingis sé hægt að tryggja börnum í landinu þá lögboðnu skólavist sem þeim beri.
„Við höfum sýnt samningsaðilum mikla biðlund, ef til vill of mikla biðlund að margra mati en á móti kemur að einhverjir munu án efa gagnrýna það neyðarrúrræði sem ríkisstjórnin hefur ákveðið að grípa til með frumvarpi þessu. Verður þá svo að vera en ég tel hins vegar rétt að börnin og heimilin í landinu fái nú að njóta forgangs ... og skólastarf geti því hafist með eðlilegum hætti starx eftir komandi helgi," sagði Halldór.
Halldór sagði, að á meðan kjaradeilu grunnskólakennara og sveitarfélaga hafi staðið hafi ríkisstjórnin ítrekað lýst því yfir að það sé skylda samningsaðila að ná saman um kjarasamning á eigin forsendum og að lagasetning á kjaradeilur sé aðeins algjört neyðarúrræði sem ekki megi grípa til nema í undantekningartilfellum. Nú sé svo komið að ríkisstjórnin telur sig ekki lengur geta setið aðgerðarlaus á meðan 45.000 skólabörn fái ekki þá lögmætu kennslu sem þeim ber. „Þrátt fyrir langt verkfall og stíf fundahöld eru deiluaðilar engu nær og hafa eins og áður sagði að því er virðist heldur fjarlægst síðustu daga. Má því færa fyrir því gild rök að svo ríkir almannahagsmunir standi til þess að starf í grunnskólum landsins geti hafist að nýju svo fljótt sem auðið er að lög sem fela í sér bann við verkfallinu eigi rétt á sér við núverandi aðstæður," sagði Halldór.
Hann sagði, að ríkisstjórnin hafi lagt áherslu á mikilvægi þess að fylgja aðhaldssamri efnahagsstefnu til að tryggja áframhaldandi stöðugleika í efnahagslífinu á næstu árum þrátt fyrir aukin umsvif vegna stóriðjuframkvæmda. Þetta eigi bæði við um stefnuna í peningamálum og fjármálum ríkis og sveitarfélaga. Í þessu samhengi sé brýnt að launastefna ríkis og sveitarfélaga komi ekki af stað víxlhækkunum verðlags og launa sem aftur hefði í för með sér aukna verðbólgu og rýrnun kaupmáttar. Þessu frumvarpi sé ætlað að stuðla að framgangi þessara markmiða.
7i fundur í deilunni
Fram kom í máli Halldórs, að verkfall grunnskólakennara hafi staðið frá 20. september sl. en kjaraviðræður kennara og skólastjóra í grunnskólum við launanefnd sveitarfélaga höfðu þá staðið yfir án árangurs um nokkurra mánaða skeið hjá embætti ríkissáttasemjara. Samningar Kennarasambands Íslands vegna grunnskólakennara og skólastjóra runnu út 31. mars sl. en viðræður hófust nokkru fyrr, eða 2. febrúar sl. Síðan þá hafi deiluaðilar komið saman formlega á 71 fundi hjá ríkissáttasemjara, auk þess sem þeir hafa ótal sinnum ræðst við óformlega á vegum embættisins.