Frumvarp til laga um kjaramál kennara og skólastjórnenda í grunnskólum var samþykkt á Alþingi rétt í þessu, með 28 atkvæðum gegn 21. 14 þingmenn voru fjarverandi. Verkfall kennara er því afnumið og gerðardómur verður skipaður til að leysa kjaradeiluna, náist ekki samkomulag fyrir 20. nóvember næstkomandi. Hefur gerðardómurinn frest til 28. febrúar til að komast að niðurstöðu.
Samkvæmt breytingartillögum meirihluta allsherjarnefndar, sem samþykktar voru í dag, verða ákvarðanir gerðardómsins bindandi sem kjarasamningur á milli aðila frá og með gildistöku laganna. Er með því tryggt að sú breyting sem verður á kjörum kennara muni gilda frá og með þeim degi þegar þeir taka aftur til starfa.
Þá gerir breytingatillagan ráð fyrir að endanlegt uppgjör launa skuli fara fram eigi síðar en fjórum vikum eftir að niðurstaða gerðardóms liggur fyrir, en frumvarpið gerði ráð fyrir dagsetningunni 30. apríl 2005.
Stjórnarandstaðan greiddi atkvæði gegn frumvarpinu. Í nefndaráliti minnihluta allsherjarnefndar segir, að lagasetningin leysi engan vanda heldur skjóti honum einungis á frest auk þess sem báðir samningsaðilar hafi lýst andstöðu sinni við hana. Nái frumvarpið fram að ganga muni óánægja innan kennarastéttarinnar magnast og kunni að leiða til flótta úr stéttinni. Skólastarf í landinu verði í uppnámi ef frumvarpið verði samþykkt enda muni kennarar mæta til starfa í algerri óvissu um framtíðarkjör sín.