Halldórs Ásgrímssonar forsætisráðherra skrifaði í dag formönnum stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi og óskaði eftir tilnefningum frá þeim í stjórnarskrárnefnd sem hafi það hlutverk að vinna að breytingum á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins.
Halldór skýrði frá þessu í ræðu í Þjóðmenningarhúsinu í dag vegna loka heimastjórnarafmælis. Hann sagði að í þessu starfi þurfi að tryggja að löggjafarstarf Alþingis geti gengið fram með eðlilegum hætti, en einnig að tryggja lýðræðislegan rétt almennings til að fá fram atkvæðagreiðslur um mál sem miklu skipta.
Þá þurfi að skýra betur hlutverk forseta, Alþingis og ríkisstjórnar í stjórnskipuninni. Einnig þurfi að gæta þess að hin lýðræðislega uppbygging sé einföld og skýr, en týnist ekki í frumskógi formsatriða og formreglna.
Ræða Halldórs Ásgrímssonar fer hér á eftir í heild sinni:
„Hinn 1. febrúar 2004 voru liðin 100 ár frá því að Íslendingar fengu heimastjórn, þingræði var fest í sessi og Stjórnarráð Íslands stofnað. Ráðherra Íslands fékk aðsetur í Reykjavík, sem varð miðstöð stjórnsýslu. Flutningur framkvæmdavaldsins til Íslands 1. febrúar 1904 markaði þáttaskil og var eitt stærsta skrefið í baráttu þjóðarinnar fyrir sjálfstæði.
Íslenska þjóðin hefur minnst afmælisins með margvíslegum hætti, ekki síst hér í hinu glæsilega Þjóðmenningarhúsi. Í febrúar var opnuð hér sýningin „Heimastjórn 1904” í samvinnu við Þjóðminjasafn Íslands. Var þar dregin upp mynd af þeim framförum og stórhug sem einkenndi líf okkar Íslendinga á tímum heimastjórnarinnar.
Margmiðlunar- og fræðsluefni, ljóð, hreyfimyndir og skemmtiefni einkenndi þá sýningu, með skáldið Hannes Hafstein í broddi fylkingar. Sem fyrsti ráðherra landsins stýrði hann þjóðinni áfram í baráttunni fyrir fullu sjálfstæði og því ekki nema viðeigandi að sýningarhluta afmælishátíðarinnar skuli í raun ljúka hér í þessu húsi og á þeim manni, með dagskrá út desembermánuð um skáldið og manninn Hannes Hafstein.
Kjósendur lærðu að dá sína menn en tortryggja andstæðingana
En sýningahald einskorðaðist ekki við Reykjavík. Í Safnahúsinu á Ísafirði var jafnframt sett upp afar vel heppnuð sýning þar sem skjöl og munir frá sýslumannstíð Hannesar á Ísafirði voru til sýnis, auk þess sem fjallað var um dr. Valtý Guðmundsson, sem í lok 19. aldarinnar barðist hvað mest fyrir stofnun ráðherraembættis á Íslandi. Meðal sýningargripa þar má nefna fálkafánann svonefnda, einkennisfána heimastjórnaráranna, en þessi einstæði gripur var jafnan dreginn að húni við Ásgeirsverslun á þessum árum.
Loks ber að nefna endurbætta sýningu í Jónshúsi í tilefni heimastjórnarafmælisins, en Alþingi tók þá ákvörðun að bæta við sýningu í því húsi sjálfstæðisbaráttuna að Jóni Sigurðssyni gengnum.
Fjölmargt annað var gert til að vekja athygli á þessu afmæli og má þar nefna ritgerðarsamkeppni framhaldsskólanema þar sem þrír framhaldsskólanemar fengu 100.000 króna verðlaun hver fyrir skrif sín um Heimastjórn, aðdraganda hennar og afleiðingar.
Á vefsíðu sem sett var upp á vegum forsætisráðuneytisins í tilefni Heimastjórnarafmælisins, er gerð grein fyrir stjórnmálalífinu hér fyrr á árum með skemmtilegum hætti. Þar er sagt að á heimastjórnartíma hafi stjórnmálalífið verið einfalt í sniðum. Virkir stjórnmálamenn hafi einkum verið alþingismennirnir, sem sátu á þingi meðfram annarri vinnu fáa mánuði annað hvert ár. Ritstjórar blaðanna, sem oft voru á þingi líka, komust nær því að vera stjórnmálamenn að atvinnu, því að blöðin töldu það meginhlutverk sitt að miðla hinni pólitísku umræðu, hvort sem þau gerðu það sem málgögn flokka og flokksbrota eða sem einkamálgögn ritstjóranna. Pólitísk umræða, bæði í blöðum og á þingi, hafi því oft verið persónuleg og illskeytt. Kjósendur lærðu að dá sína menn, en tortryggja andstæðingana, ef ekki að fyrirlíta. Stjórnmálunum sem slíkum gerðu menn hins vegar ekki lítið úr, enda duldist ekki að þar var tekist á um hin mikilvægustu framtíðarmál: uppbyggingu nútímaþjóðfélags á Íslandi og stöðu Íslands gagnvart Danmörku.
Óvenju vindasamt á afmælisári heimastjórnarinnar
Hið síðarnefnda, sjálfstæðisbaráttan, var allra mesta alvörumál stjórnmálanna, heilagur málstaður þjóðar og þjóðernis, og lítil takmörk fyrir því hve sárt fólki gat mislíkað ef það taldi illa haldið á þeim málum.
Með heimastjórninni varð myndun þingmeirihluta og val á ráðherra að nýjum brennipunkti stjórnmálanna, og samstarf þings og stjórnar varð lykilatriði í farsælli landstjórn. Í því efni reyndist Heimastjórnartíminn býsna stormasamur.
Því er þessu velt upp hér, að segja má að afmælishátíð heimastjórnarafmælisins hafi borið upp á óvenju vindasömu ári í íslenskum stjórnmálum. Ég ætla ekki að rekja þá viðburði hér frekar, enda líklega flestum kunnir, en segja má að þeir hafi þó fært okkur sanninn um nauðsyn þess að ræða stjórnskipan landsins í víðara samhengi og án beinna tengsla við helstu ásteitingarsteina hinnar líðandi stundar.
Í stefnuræðu minni á Alþingi þann 4. október sl. vék ég m.a. að þessu málum og sagði: „Þeir menn sem stóðu í fylkingarbrjósti íslenskrar þjóðar að fengnu frelsi komu fram af metnaði og stórhug. Ekkert var sæmandi Íslandi og Íslendingum nema það besta. Íslendingar skyldu óhræddir skapa sér sess meðal annarra þjóða á jafnréttisgrundvelli. Þessa viðhorfs mátti sjá stað jafnt í alþjóðamálum, í atvinnumálum, í félagsmálum og menningarmálum. Eitt var þó það verk sem þeir vísuðu til komandi kynslóða. Það var endurskoðun stjórnskipunarinnar og ákvarðanir um framtíðarstjórnskipun Íslands.
Verkefni sem aldrei hefur með fullnægjandi hætti verið leitt til lykta
Á liðnu sumri hvessti verulega í íslensku stjórnmálalífi. Nú þegar þeirri hríð hefur slotað er mikilvægt að við tökumst á hendur það verkefni sem aldrei hefur með fullnægjandi hætti verið leitt til lykta. Á því þingi sem nú fer í hönd þarf að hefja sameiginlegt starf allra flokka að endurskoðun stjórnarskrárinnar. Í því starfi þarf að tryggja að löggjafarstarf Alþingis geti gengið fram með eðlilegum hætti, en einnig að tryggja lýðræðislegan rétt almennings til að fá fram atkvæðagreiðslur um mál sem miklu skipta. Þá þarf að skýra betur hlutverk forseta, Alþingis og ríkisstjórnar í stjórnskipuninni.
Þetta verkefni er vandasamt og miklu skiptir að þeir sem að því koma líti til þess af ábyrgð. Við þurfum líka að gæta þess að hin lýðræðislega uppbygging sé einföld og skýr, en týnist ekki í frumskógi formsatriða og formreglna.
Við endurskoðun hinna lýðræðislegu leikreglna þurfum við að hafa þetta í huga. Einungis þannig getum við verið trú þeim bjartsýna anda sem einkenndi lýðveldisstofnunina fyrir sextíu árum og hefur verið leiðarljós okkar æ síðan.“
Stjórnarskrárnefndin hefur eitt ár til vinnunnar
Í samræmi við þessi markmið sem sett voru fram í stefnuræðunni, hef ég í dag skrifað bréf til formanna allra þeirra stjórnmálaflokka sem sæti eiga á Alþingi og óskað eftir tilnefningum frá þeim í stjórnarskrárnefnd sem hafi það hlutverk að vinna að breytingum á stjórnarskrá íslenska lýðveldisins. Verður nefndin skipuð alls níu fulltrúum; þremur sem tilnefndir eru af Sjálfstæðisflokki, tveimur fulltrúum frá Samfylkingu og Framsóknarflokki og einum fulltrúa Vinstri hreyfingarinnar – græns framboðs og Frjálslynda flokksins. Skipar forsætisráðherra formann nefndarinnar úr hópi nefndarmanna. Að auki mun fjögurra manna sérfræðinganefnd starfa náið með stjórnarskránefndinni, en formaður hennar verður Eiríkur Tómasson, lagaprófessor. Aðrir í sérfræðingarnefndinni verða Kristján Andri Stefánsson lögfræðingur, Gunnar Helgi Kristinsson prófessor í stjórnmálafræði og Björg Thorarensen lagaprófessor.
Báðum nefndum er ætlað að hefja störf sín í upphafi nýs árs og ljúka störfum ekki síðar en í byrjun árs 2007, enda verði stefnt að því að kjósa um stjórnarskrárbreytingar í alþingiskosningum það ár.
Stjórnarskráin á að vera hafin yfir pólitískt dægurþras
Ég vil sérstaklega lýsa því yfir að enda þótt stjórnarskrá Íslands sé vitaskuld í eðli sínu hápólitískt plagg þá er það skoðun mín að hún eigi að mestu að vera hafin yfir pólitískt dægurþras sem er í eðli sínu mjög háð tíma og rúmi. Ég óska því eftir góðu samstarfi allra stjórnmálaflokka um þá mikilvægu vinnu sem framundan er við endurskoðun hennar og ítreka, að gefnu tilefni, að engin ákvörðun hefur verið tekin um breytingar á einstökum köflum hennar eða greinum. Stjórnarskránefnd og sérfræðinganefnd hennar hafa frjálsar hendur við sín störf, en hljóta þó að taka mið af þeirri frjóu umræðu sem hefur spunnist um þessi mál síðustu mánuði og misseri.
Ég vil fyrir hönd ríkisstjórnar Íslands færa framkvæmdanefnd um heimastjórnarafmælið sérstakar þakkir og þá einkum formanni hennar, Júlíusi Hafstein sem haft hefur veg og vanda af framkvæmd afmælishátíðarinnar. Þá vil ég þakka öllum þeim sem komið hafa að einstökum viðburðum á afmælisárinu og segja málþing þetta, sem markar formleg lok heimastjórnarafmælisins, formlega sett.“