Jón Baldvin hættir sem sendiherra í Helsinki

Jón Baldvin Hannibalsson lætur af störfum sem sendiherra í Helsinki og Þorsteinn Pálsson sem sendiherra í Kaupmannahöfn 1. nóvember næstkomandi. Eru þetta á meðal flutninga sendiherra hjá íslensku utanríkisþjónustunni sem fyrirhugaðir eru í ár, að því er fram kemur í fréttatilkynningu frá utanríkisráðuneytinu.

Aðrar breytingar eru þær að Kjartan Jóhannsson lætur af störfum sem sendiherra í Brussel en Stefán Haukur Jóhannesson sendiherra í Genf flyst til Brussel. Þá mun Kristinn F. Árnason, sendiherra, skrifstofustjóri varnarmálaskrifstofu flytjast til Genfar.

Hannes Heimisson, aðalræðismaður í New York verður sendiherra í Helsinki. Svavar Gestsson sendiherra í Stokkhólmi flyst til Kaupmannahafnar en Guðmundur Árni Stefánsson alþingismaður tekur við starfi sendiherra í Stokkhólmi.

Guðmundur Eiríksson sendiherra í Ottawa tekur leyfi frá störfum en Markús Örn Antonsson, útvarpsstjóri tekur við sem sendiherra í Ottawa.

Sigríður Ásdís Snævarr flyst frá alþjóðaskrifstofu á skrifstofu ráðuneytisstjóra og verður staðgengill hans og Jón Egill Egilsson, sendiherra tekur við varnarmálaskrifstofu.

Þeir Guðmundur Árni Stefánsson og Markús Örn Antonsson koma til starfa í ráðuneyti frá 1. september áður en þeir taka við embætti í Stokkhólmi og Ottawa.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka