Fer fram á rannsókn á meintum fangaflutningum um íslenska lofthelgi

Helgi Hjörvar, þingmaður Samfylkingarinnar, hefur óskað formlega eftir því að Björn Bjarnason, dómsmálaráðherra, láti fara fram opinbera rannsókn á meintum flutningum fanga um íslenska lofthelgi. Rannsóknin hafi meðal annars að markmiði að leiða í ljós hverjir hafi verið fluttir með þessum hætti, hvenær, hvaðan og hvert og hver afdrif þeirra urðu á áfangastað.

Í bréfi til dómsmálaráðherra segir Helgi, að mjög hafi verið fjallað undanfarið um meinta flutninga fanga Bandaríkjastjórnar um íslenska lofthelgi í fangelsi á vegum bandarísku leyniþjónustunnar austan hafs og vestan. Umræddum föngum sé meinað um réttarstöðu stríðsfanga og er haldið föngnum án dómsúrskurðar. Sterkur grunur leiki á því að umræddir fangar séu beittir pyndingum við yfirheyrslur í fangelsum þessum.

Helgi segir, að samkvæmt 1. mgr. 4. gr. almennra hegningarlaga skuli refsa eftir íslenskum hegningarlögum fyrir brot, framin innan íslenska ríkisins. Sé brot framið af starfsmanni eða farþega erlends skips eða loftfars, sem er á ferð hér á landi, gegn manni, sem með farinu fylgist, eða hagsmunum, sem við farið séu nátengdir, skuli þó því aðeins refsa hér, að dómsmálaráðherra fyrirskipi rannsókn og málshöfðun.

Ennfremur skuli refsa eftir íslenskum hegningarlögum fyrir háttsemi, sem greini í samningi gegn pyndingum og annarri grimmilegri, ómannlegri eða vanvirðandi meðferð eða refsingu frá 10. desember 1984, enda þótt það sé framið utan íslenska ríkisins og án tillits til þess, hver er að því valdur. Slík mál skal þó aðeins höfða eftir fyrirskipun dómsmálaráðherra.

Helgi segir að samkvæmt þessum samningi skuli hvert aðildarríki gera þær ráðstafanir sem nauðsynlegar séu til að fella nánar greind brot undir lögsögu sína ef sökunautur er staddur á landsvæði í lögsögu þess. Þá skuli ríki hafa frumkvæði að frumrannsókn á málavöxtum og tryggja nærveru manns sem sakaður er um brot, ef hann er staddur innan lögsögu ríkisins.

Segir Helgi að í ljósi þessa telji hann óhjákvæmilegt að fara fram á það við dómsmálaráðherra, að hann fyrirskipi opinbera rannsókn á meintum flutningum fanga um íslenska lofthelgi. Rannsóknin hafi meðal annars að markmiði að leiða í ljós hverjir hafi verið fluttir með þessum hætti, hvenær, hvaðan og hvert og hver afdrif þeirra urðu á áfangastað. Jafnframt verði kannað hvernig aðbúnaði mannanna hafi verið háttað, m.a. hvort þeir hafi sætt yfirheyrslum, meðan þeir voru innan íslenskrar lögsögu. Rannsökuð verði m.a. flug N379P, N1HC og N822US. Rannsóknin spanni a.m.k. tímabilið frá september 2001 til dagsins í dag, en ætlaðir fangaflutningar eru taldir hafa farið fram á því tímabili.

Þá beinist rannsóknin að því að kanna hverjir séu ábyrgir fyrir flutningunum, með það að markmiði að viðkomandi verði handteknir ef þeir koma á ný til Íslands, í samræmi við ákvæði alþjóðasamningsins.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert