Segir yfirlýsingu Rice svara spurningum íslenskra stjórnvalda

Á fundi, sem Geir H. Haarde, utanríkisráðherra, átti í dag með Nicholas Burns, aðstoðarutanríkisráðherra Bandaríkjanna, voru meintir ólöglegir fangaflutningar á vegum bandarískra stjórnvalda um íslenska lofthelgi og flugvelli voru til umræðu.

Vísaði Burns til þess að yfirlýsingar væri að vænta í dag frá Condoleezza Rice, utanríkisráðherra Bandaríkjanna, um fangaflutningana. Í tilkynningu frá utanríkisráðuneytinu segir, að yfirlýsingin liggi nú fyrir og telji utanríkisráðherra að hún svari spurningum íslenskra stjórnvalda.

Geir tók málið upp á fundi með Burns, sem var haldinn í tengslum við ráðherrafund ÖSE í Ljubliana í Slóveníu í dag. Fundurinn með Burns var haldinn að ósk Bandaríkjamanna til að ræða stöðuna í varnarviðræðum landanna. Aðallega var rætt um hvernig mætti koma samningaviðræðum af stað og verður áfram unnið að því.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert