Utanríkisráðuneytinu er ekki kunnugt um að flugvélar á vegum bandarísku leyniþjónustunnar með fanga eða meinta hryðjuverkamenn hafi farið um íslenska lofthelgi eða notað Keflavíkur- eða Reykjavíkurflugvöll. Bandarísk stjórnvöld hafa ekki sótt um yfirflugs- eða lendingarleyfi fyrir slíkar flugvélar.
Þetta kemur fram í svari Geirs H. Haarde, utanríkisráðherra, á Alþingi við fyrirspurn Steingríms J. Sigfússonar, þingmanns VG.
Í svarinu segir, að um borgaralega flugumferð gildi sú regla víðast hvar samkvæmt alþjóðasamningum að ekki þurfi sérstakt leyfi til að fljúga um lofthelgi ríkja í friðsamlegum tilgangi. Á íslenskum flugvöllum sæti borgaralegar flugvélar venjubundinni afgreiðslu og eftir atvikum tollskoðun eða landamæraeftirliti.
Um flugvélar á vegum erlendra stjórnvalda eigi almennt við sú regla að sækja ber um yfirflugs- og lendingarleyfi. Reyndar sé það svo að í umsóknum um yfirflugsheimildir og lendingarleyfi beri einungis að greina frá hergögnum og hættulegum varningi um borð, en ekki sé skylt að greina frá hverjir eru um borð.
Þá segir í svarinu, að það sé ekki brot á alþjóðareglum að flytja fanga og slíkur flutningur eigi sér áreiðanlega mjög oft stað af hálfu erlendra aðila í lofthelgi Íslands sem og annarra ríkja. Öðru máli gilti ef flugvélar færu um íslenska lofthelgi eða flugvelli með fanga til pyndinga eða annarrar ómannúðlegrar meðferðar sem bönnuð er í alþjóðasamningum. Íslenskum stjórnvöldum sé ekki kunnugt um að það hafi gerst.
Steingrímur spurði hvort íslensk stjórnvöld muni meina flugvélum með fanga eða meinta hryðjuverkamenn, sem sætt hafi eða eigi á hættu að sæta pyntingum eða annarri ómannúðlegri meðferð, aðgang að íslenskri lofthelgi og afnot af íslenskum flugvöllum. Þessu svarar Geir játandi og vísar til þess að það hafi komið skýrt fram í máli hans á Alþingi 16. nóvember síðastliðinn. Þá var vísað til þess að íslensk stjórnvöld legðu áherslu á að öll ríki færu eftir gildandi mannúðar- og mannréttindalögum.
Steingrímur spurði einnig hvernig íslensk stjórnvöld hyggist bregðast við því ef flug á vegum opinberra aðila sem dulbúið væri sem borgaralegt flug, hafi farið, eða muni fara um íslenska lofthelgi eða nota íslenska flugvelli. „Hér er um skilyrta spurningu að ræða og því einu til að svara á þessu stigi að íslensk stjórnvöld munu að sjálfsögðu bregðast hart við öllum brotum á alþjóðalögum í íslenskri lögsögu," segir í svarinu.
Þá kemur fram að bandarískum stjórnvöldum hafi verið kynnt afstaða íslenskra stjórnvalda og þau ítrekað verið krafin um svör líkt og kom fram í svari við fyrirspurn á Alþingi 16. nóvember. Viðbrögð íslenskra stjórnvalda séu sambærileg við viðbrögð annarra ríkja.