Skrifleg fyrirspurn á Alþingi um aðild þýsks banka að Búnaðarbankakaupum

Ögmundur Jónasson, þingmaður VG, hefur lagt fram fyrirspurn á Alþingi um hvort viðskiptaráðherra geti upplýst með óyggjandi hætti, m.a. á grundvelli upplýsinga sem aflað verði frá Fjármálaeftirlitinu hérlendis og sambærilegri stofnun í Þýskalandi, hvort þýski bankinn Hauck & Aufhauser hafi verið meðal raunverulegra kaupenda og síðan eigenda Búnaðarbankans sem hluti af Eglu hf. þegar einkavæðingu Búnaðarbankans lauk.

Ögmundur spyr síðan: Ef í ljós kemur að hinn erlendi banki var ekki meðal raunverulega kaupenda og upplýsingar þar um voru rangar, hvaða afleiðingar mun það hafa í för með sér gagnvart:

    a. öðrum bjóðendum í Búnaðarbankann sem gengið var fram hjá með vísan til hins erlenda banka sem þátttakanda í tilboði Eglu hf.
    b. einkavæðingarnefnd
    c. ráðherranefnd um einkavæðingu
    d. Kauphöll Íslands vegna rangrar upplýsingagjafar eða mistaka við eftirlit
    e. Fjármálaeftirlitinu vegna rangrar upplýsingagjafar eða mistaka við eftirlit
    f. Ríkisendurskoðun, sbr. skýrslu þeirrar stofnunar um einkavæðinguna
    g. kaupandanum Eglu hf.?

Fyrirspurnin kemur fram eftir að Vilhjálmur Bjarnason, aðjunkt við Háskóla Íslands, fullyrti að skoðun á efnahagsreikningi þýska bankans fyrir árið 2003 leiði í ljós, að bankinn átti ekkert í Eglu en eignarhluturinn hefði átt að koma fram þar.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka