Skilorðsbundið fangelsi fyrir að ráðast á hjón

Héraðsdómur Norðurlands vestra hefur dæmt karlmann á fimmtugsaldri í mánaðar skilorðsbundið fangelsi fyrir að veitast að hjónum um sextugt og hrinda konunni þannig að hún féll við og draga karlmanninn niður tröppur og þjarma í kjölfarið að honum. Þetta gerðist við hús í Húnavatnshreppi í desember sl.

Þessir atburðir gerðust eftir að eldri karlmaðurinn skaut hunda frá yngri manninum, sem býr á nálægum bæ en hundarnir höfðu ráðist á fé. Maðurinn kom á bæinn til að sækja hundshræin.

Maðurinn viðurkenndi að hafa veist að hinum manninum en neitaði því að hafa hrint konunni og sagði að hún hlyti að hafa dottið um þúfu. Dómurinn taldi hins vegar ekki óvarlegt að sakfella manninn fyrir þetta, m.a. með hliðsjón af framburði vitna og áverkum, sem konan hlaut.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert