Tilkynnt um frekara vatnstjón við Steinahlíð

Slökkviliðið á Akureyri aðstoðaði við hreinsunarstarfið
Slökkviliðið á Akureyri aðstoðaði við hreinsunarstarfið mbl.is/Jón Stefán Jónsson

Tilkynnt var um þriðja vatnstjónið í dag til lögreglunnar á Akureyri nú síðdegis. Íbúar húss við Steinahlíð, skammt frá þar sem vatnstjón varð á tveimur húsum í morgun komu heim til sín um fjögurleytið og blasti þá við mikið vatn og hafa þar orðið mjög miklar skemmdir að sögn lögreglu, m.a. á innanstokksmunum, innréttingum og veggjum.

Þá hefur lögregla haft fregnir af vatnstjóni í a.m.k. fimm íbúðum til viðbótar, en líklegt er að það sé minniháttar þar sem ekki hefur verið tilkynnt um það til lögreglu.

Fram kom í fréttum fyrr í dag að unnið hafi verið að tengingu upp úr klukkan tíu í morgun þegar þrýstibylgja kom inn á kerfið. Í einhverjum tilvikum fór inntak í sundur með þeim afleiðingum að heitt vatn flæddi inn í húsin.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka