Alltaf viss um að þetta væri mannréttindabrot

„Þetta var stórglæsilegt,“ sagði Örn Snævar Sveinsson, um álit mannréttindanefndar Sameinuðu þjóðanna. Örn kvaðst ekki hafa lesið álit nefndarinnar en taldi að það mundi breyta miklu fyrir íslenska sjómenn.

Örn kvaðst hafa verið togaraskipstjóri fyrir upphaf kvótakerfisins og hafa aflað vel. Síðan var togarinn seldur og Örn fór til útlanda. Þegar hann kom aftur heim ákvað hann að fara í útgerð. Hann keypti kvótalausan bát ásamt fleirum og fóru þeir að gera Svein Sveinsson BA út. Örn vísaði til aflareynslu sinnar og sótti um kvóta og til vara að fá að veiða í þrjú ár og að besta árið yrði viðmiðunarár. Þessu var hafnað. Þeir leigðu kvóta en sáu að dæmið gekk ekki upp.

„Mér fannst einkennilegt að það væri hægt að útiloka mig frá sjómennsku þar sem ég er lærður í að stunda sjó, veiða fisk og hef aldrei gert neitt annað,“ sagði Örn. „Ég hafði aldrei trú á að þetta væri annað en hreint mannréttindabrot, sem nú er komið í ljós.“ Hann kvaðst hafa sagt við félaga sína að eina leiðin væri að veiða kvótalaust og fá dæmt í málinu.

„Ég hringdi í þá hjá Fiskistofu og lét vita að við ætluðum að róa kvótalausir. Við rerum í nokkra daga, vorum bara tveir á, og reyndum ekkert að fiska mikið. Við vorum sviptir veiðileyfi og ég sagði að við skyldum fara í einn róður enn til að það yrði öruggt að það yrði tekið á okkur. Við vorum kærðir en töpuðum málinu í Héraðsdómi Vestfjarða og því var skotið til Hæstaréttar. Hann fjallaði ekkert um það efnislega heldur bara staðfesti dóm héraðsdóms. Þá var ákveðið að skjóta málinu til mannréttindanefndarinnar.“

Örn kvaðst ekki verða sáttur fyrr en hann hefði fengið fullar bætur fyrir þau réttindi sem hann teldi sig hafa verið sviptan.

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka