Mál verði höfðað gegn Bretum

Frá Alþingi.
Frá Alþingi.

Fimm þingmenn úr öllum flokkum hafa lagt fram frumvarp þess efnis að fjármálaráðherra megi veita fé til að standa undir kostnaði af því að höfða mál gegn breskum stjórnvöld um beitingar hryðjuverkalaga gegn Landsbankanum og greiðslustöðvunar gegn dótturfélagi Kaupþings.

Sigurður Kári Kristjánsson er fyrsti flutningsmaður en hann og Helgi Áss Grétarsson, lögmaður, sömdu frumvarpið, að því er fram kemur í greinargerð.

„Það er skoðun flutningsmanna að löggjafarvaldinu og íslenskum stjórnvöldum beri að gera allt sem í valdi þeirra stendur til að tryggja að mögulegt verði að höfða mál innan málshöfðunarfresta gegn breskum stjórnvöldum vegna þeirra stjórnvaldsaðgerða sem bresk stjórnvöld beittu gagnvart íslensku bönkunum tveimur jafnvel þó svo að kröfuhafar bankanna kjósi að velja ekki þann kost. Telja flutningsmenn að hagsmunir þeirra sem í hlut kunna að eiga og hagsmunir íslensku þjóðarinnar af slíkri málsókn séu svo veigamiklir að óvissa um það hver beri fjárhagslega og lagalega ábyrgð á slíkri málsókn megi ekki standa henni í vegi. Og í ljósi þess að þær stofnanir sem að slíkri málsókn kunni að koma eru flestar eða allar með einum eða öðrum hætti á vegum og ábyrgð ríkisins telja flutningsmenn réttlætanlegt að mæla fyrir frumvarpi sem þessu,“ segir í greinargerð.

Flutningsmenn eru auk Sigurðar Kára: Árni Páll Árnason, Katrín Jakobsdóttir, Höskuldur Þórhallsson og Jón Magnússon.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka