Nýsköpunarverðlaunin afhent

Í dag mun Ólafur Ragnar Grímsson, forseti Íslands, afhenda Nýsköpunarverðlaun forseta Íslands á Bessastöðum. Verðlaunin eru veitt þeim sem þykir hafa skarað fram úr við vinnslu verkefna sem styrkt eru af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Kristín Heiða Kristinsdóttir spjallaði við þá fimm nemendur sem tilnefndir voru þetta árið til verðlaunanna.

Bætibakteríur

„Ég vildi fara í sumarstarf sem tengdist náminu mínu og sótti því um þegar ég frétti að MATÍS væri að fara af stað með þetta verkefni í samstarfi við Háskólann á Akureyri,“ segir norðankonan Hugrún Lísa Heimisdóttir sem er í líftækninámi við Háskólann á Akureyri.

Verkefnið hennar heitir „Bætibakteríur – hin hliðin“, en það fólst í því að athuga hvort hægt væri að finna bætibakteríur í lúðueldi sem síðan væri hægt að setja út í umhverfið hjá lúðulirfum, í þeim tilgangi að bæta afkomu þeirra.

„Eitt af einkennum góðra bætibaktería er að hamla vexti slæmra og var það minn hlutur í verkefninu að rannsaka þá og ýmsa aðra eiginleika þeirra baktería sem taldar voru vera mögulegar bætibakteríur. Einnig er mikilvægt að hægt sé að framleiða mikið af hugsanlegum bætibakteríum sem hægt er að geyma með auðveldum hætti og skoðaði ég því vaxtarhamlandi áhrif bætibakteríanna í bæði ferskum og frostþurrkuðum ræktum. Frostþurrkun er þægileg og æskileg leið til að geyma og flytja bakteríurnar.“

Gott fyrir eldi kaldsjávarfiska

Hugrún segir að á fyrstu stigum eldisfisksins sé hann fóðraður með dýrasvifi sem er lifandi fóður, en því fylgir mikil bakteríuflóra sem hefur áhrif á afkomu lirfanna.

„Bætibakteríur virka svipað og AB-gerlar hjá mannfólkinu. Bætibakteríurnar geta til dæmis haft hamlandi áhrif á vöxt slæmu bakteríanna,“ segir Hugrún sem sá alfarið um verkefnið þó aðrir hafi verið búnir að einangra hugsanlegar bætibakteríur áður og prófa þær í eldinu. „Stórum hluta slæmu bakteríanna var safnað saman og líka þeim sem taldar voru vera mögulegar bætibakteríur. Ég sá svo um að skoða áhrif bætibakteríanna á slæmar bakteríur með því að sá þeim í ýmsar ræktir á rannsóknarstofu.“

Hún segir árangurinn hafa verið mjög góðan og að nokkrir stofnar bætibaktería hafi sýnt möguleg hamlandi áhrif á vöxt slæmu bakteríanna. „Það væri virkilega gaman að rannsaka þetta enn frekar, því bætibakteríur eru ekki eingöngu mikilvægar í lúðueldi heldur öllu eldi kaldsjávarfiska sem eru fóðraðir með lifandi fóðri. Þetta kemur því vonandi til með að nýtast víða.“ Hugrún á eftir eitt og hálft ár í líftækninámi sínu við Háskólann á Akureyri og hún stefnir á að fara í mastersnám að því loknu.

Fæðingarorlof

Rannveig Sigríður Ragnarsdóttir lýkur BA-námi í félagsráðgjöf við Háskóla Íslands í vor. Verkefni hennar gekk út á það að öðlast þekkingu og skilning á aðstæðum foreldra, sem ekki fara með sameiginlega forsjá, til fæðingarorlofstöku.

„Guðný Björk Eydal dósent við félagsráðgjafadeild HÍ var umsjónarmaður minn í verkefninu, en í megindlegri rannsókn sem hún gerði, kom í ljós að feður sem ekki búa með börnum sínum, nýta síður fæðingarorlof en feður í sambúð eða hjónabandi. Ég gerði síðan viðtalsrannsókn meðal einstæðra foreldra, um hvernig þeir höguðu fæðingarorlofinu. Stór hluti barna fæðist utan sambúðar og hjónabands. Árið 2005 voru þau t.d. yfir 600 talsins.“

Fæðingarorlofslögin eru þannig að forsjárlausir feður geta ekki nýtt sér fæðingarorlofið nema með samþykki barnsmóður. Rannveig tekur fram að ef faðirinn taki ekki orlofið, þá færist það ekki yfir til móður. Rannveig talaði við ellefu einstaklinga, sex mæður og fimm feður og hún segir að í ljós hafi komið að ástæður þess að feður tóku ekki fæðingarorlof hafi verið misjafnar.

„Til dæmis lítil samskipti milli foreldra á meðgöngu, sambandsslit sem enduðu illa sem og áhugaleysi föður. Í einu tilfelli þekkti mjög ungur faðir einfaldlega ekki rétt sinn og í öðru tilfelli neitaði móðir að skrifa upp á. Þrír af þeim fimm feðrum sem ég talaði við, nýttu sér því fæðingarorlofið.“

Einn feðranna sem Rannveig ræddi við, tók sex mánaða fæðingarorlof en barnsmóðir hans ætlaði ekki að nýta sína mánuði. Annar faðir nýtti þrjá mánuði af sínu orlofi og þriðji faðirinn nýtti sitt fæðingarorlof aðeins í einn mánuð.

„Áhugavert er að skoða markmið fæðingarorlofslaganna og hvort þau skili sér sem skyldi, því lögin eiga að tryggja samvistir barns við bæði móður og föður. En þegar móðirin hefur neitunarvald í þessum málum, er réttur forsjárlausra feðra greinilega skertur. Einn faðirinn vildi til dæmis að utanaðkomandi aðili, hjá Tryggingastofnun eða Sýslumanni, tæki ákvörðun um rétt einstæðra feðra til að taka orlof, út frá mati fagaðila. Eins og lögin eru í dag, geta mæður neitað mjög verðugum og hæfum feðrum um að taka orlof, sem ég tel vera brotalöm í lögunum. Það er nauðsynlegt að koma á markvissri fjölskyldu- og félagsráðgjöf við verðandi foreldra, til að hlúa betur að tengslum þeirra með hagsmuni barnsins að leiðarljósi,“ segir Rannveig sem stefnir á framhaldsnám.

Skemmdir á erfðaefni

„Það er mjög mikilvægt að átta sig á því hvernig erfðaefni mannsins verst gegn skemmdum, því þá getum við skilið betur meingerð sjúkdóma. Mjög margir sjúkdómar, til dæmis margs konar krabbamein, byggjast á því að erfðaefnið skemmist, vegna þess að varnarkerfið laskast. Það er sennilegt að fruman búi yfir einhvers konar kerfi til að draga úr skemmdum. Verkefni mitt gekk út á það að skilja betur þetta varnarkerfi gegn skemmdum og með hvaða hætti fruman verst því til dæmis að verða krabbameinsfruma,“ segir Martin Ingi Sigurðsson sem vann Nýsköpunarverðlaunin árið 2007 en hann klárar læknisfræðina nú í vor.

„Ég hef verið að fikra mig áfram með tölvulíkön af utangenaerfðum, en verkefnið sem ég er tilnefndur fyrir núna er einmitt á því sviði. Ég reyni að varpa ljósi á með hvaða hætti fruman verst skemmdum vegna erfðafræðilegs fyrirbæris sem heitir stökklar. Stökklar eru litlir bútar erfðaefnis sem geta mögulega skemmt erfðaefnið og valda þannig margs konar sjúkdómum, sérstaklega mörgum gerðum af krabbameinum.“

Martin segir að varnarkerfi frumunnar sé mögulega utangenaerfðafræðilegt og byggist á fyrirbæri sem kallast DNA-metýlun. „Ég rannsakaði þetta á lífupplýsingafræðilegan hátt, með því að búa til líkan af DNA-metýlun erfðaefnisins. Jafnframt er ég með upplýsingar um hvar í erfðaefninu er mikið af stökkbreytingum, sem geta mögulega valdið skemmdum. Síðan kortlagði ég þetta allt saman með tilliti til fyrrnefndra stökkla. Ein af stærstu stökklafjölskyldunum og sú sem er einna líklegust til að valda skemmdum á erfðaefninu, reyndist vera með mjög lítið af metýlun. Það merkir að annaðhvort hefur þessi stökklafjölskylda brotið niður þetta varnarkerfi og er þá virk þar sem lítið er af metýlun, eða að varnarkerfið er uppbyggt með einhverjum öðrum hætti. Þetta varpar semsagt nánara ljósi á það hvernig varnarkerfi mannsins er og hvernig stökklarnir geta mögulega sigrað varnarkerfi frumnanna,“ segir Martin sem vinnur nú að doktorsverkefni og ætlar í sérnám í lyflækningum eða barnalækningum.

Gönguhermir fyrir fatlaða

„Við vorum þrír nemar við Háskóla Íslands sem unnum saman að þessu verkefni í sumar; ég, Bjarki Már Elíasson vélaverkfræðinemi og Andri Yngvason nemi í rafmagns- og tölvuverkfræði,“ segir Jóna Guðný Arthúrsdóttir sem útskrifaðist síðastliðið vor sem sjúkraþjálfari og vinnur núna sem slíkur á Æfingastöð Styrktarfélags lamaðra og fatlaðra.

„Hugmyndin að verkefninu kviknaði hjá Þjóðbjörgu Guðjónsdóttur barnasjúkraþjálfara og lektor við Háskóla Íslands, í starfi hennar með hreyfihömluðum börnum og ungmennum. Hún ásamt Karli S. Guðmundssyni og Fjólu Jónsdóttur, dósentum við verkfræðisvið Háskóla Íslands, óskaði eftir nemendum í þetta verkefni og við gáfum kost á okkur. Verkefnið gekk út á hugmyndavinnu að sérhönnuðu tæki, svokölluðum „Stride Simulator“ eða gönguhermi, sem ætlaður er fyrir alvarlega hreyfihömluð börn.“

Hreyfiþjálfun skiptir miklu

Jóna Guðný segir tækið vera hugsað þannig að börnin séu fest í það, þannig að þau standi upprétt, og svo framkallar tækið ákveðna hreyfingu á fótum þeirra, hreyfingu sem líkir eftir eðlilegri göngu.

„Þau börn sem gönguhermirinn er hugsaður fyrir eru alveg bundin í hjólastól og fá því litla sem enga hreyfingu dagsdaglega. Sú hreyfiþjálfun sem hermirinn myndi veita, gæti skipt miklu máli til að auka beinþéttni barnanna sem iðulega er mjög lítil, auka þroska mjaðmaliða og bæta blóðflæði svo eitthvað sé nefnt. Hugmyndin er sú að börnin geti haft tækið á leikskólanum, í grunnskólanum eða jafnvel heima hjá sér, þannig að hægt sé að flétta notkun þess inn í daglegt líf barnanna.“

Jóna Guðný bætir við að tæki sem þetta hafi ekki verið til á markaðnum til þessa og hún voni að í framhaldinu verði hægt að koma því í framleiðslu.

Jóna Guðný segir starf sjúkraþjálfara vera mjög skemmtilegt og gefandi. Hún stefnir á framhaldsnám og segir ekki ólíklegt að það muni tengjast sjúkraþjálfun barna.

Lífrænt eldsneyti úr sorpi

„Þetta kom þannig til að leiðbeinandi minn, Jóhann Örlygsson, prófessor við Háskólann á Akureyri, hefur verið að vinna að rannsóknum sem tengjast framleiðslu lífeldsneytis með hitakærum bakteríum,“ segir segir Máney Sveinsdóttir sem kláraði í vor nám sitt í líftækni við Háskólann á Akureyri en býr nú í Bandaríkjunum þar sem hún kannar möguleika á framhaldsnámi á sviði líftækni.

„Nýsköpunarverkefnið mitt í sumar gekk út á það að nota hitakærar gerjandi bakteríur til að búa til endurnýjanlegt eldsneyti (lífetanól), úr hráefni sem til fellur á Íslandi í dag. Tilgangur verkefnisins var að kanna framleiðslu á endurnýjanlegum orkugjafa, etanóli, með hitakærum bakteríum. Notaðar voru bakteríur sem hafa verið einangraðar úr íslenskum hverum og ódýr lífmassi á borð við dagblaðapappír, gras og sag, sem fellur til sem úrgangur á Íslandi.“

Lífmassinn var formeðhöndlaður með hita, ensímum og sýru til þess að brjóta hann niður og koma á það form sem bakteríur ráða við að gerja í etanól. „Blöndurnar voru síðan settar í mismiklum styrk í bakteríuæti og sjö mismunandi stofnar úr stofnasafni Háskólans á Akureyri látnir gerja. Niðurstöður leiddu í ljós að einn stofn var afgerandi bestur og mest etanólframleiðsla fékkst úr pappír.“

Máney segir að rannsóknir á þessu sviði séu mjög mikilvægar í dag. „Nú þegar hefur Evrópubandalagið sett reglugerðir sem miða að því að á næsta ári eigi hlutfall endurnýjanlegs eldsneytis að vera 5,75% af heildareldsneyti sem notað er, og fyrir árið 2020 skuli þetta vera 10%. Við Íslendingar stöndum frammi fyrir því að þurfa annaðhvort að flytja þetta inn eða vera sjálfbær með þessa framleiðslu úr íslensku hráefni. Ef niðurstaðan verður sú að hér sé hægt að nota hitakærar bakteríur til þess að framleiða lífrænt eldsneyti úr úrgangi er ljóst að það eru miklir hagsmunir fyrir Ísland. Meðal annars yrðum við minna háð jarðefnaeldsneyti og flutningskostnaður á því mun minnka. Ljóst er að auka þarf þekkingu á þessu sviði hér á landi verulega.“

Um verðlaunin
Nýsköpunarverðlaunin eru veitt árlega þeim námsmönnum sem hafa unnið framúrskarandi starf við úrlausn verkefnis sem styrkt var af Nýsköpunarsjóði námsmanna. Verðlaunin voru fyrst veitt í ársbyrjun 1996 og eru því veitt nú í fjórtánda sinn. Forseti Íslands, Ólafur Ragnar Grímsson afhendir verðlaunin við hátíðlega athöfn á Bessastöðum.

Um Nýsköpunarsjóð námsmanna
Nýsköpunarsjóður námsmanna var  stofnaður árið 1992. Markmið hans er að gefa háskólum, rannsóknarstofnunum og fyrirtækjum tækifæri til að ráða háskólanema í grunn- og meistaranámi til sumarvinnu að rannsóknar- og þróunarverkefnum sem stuðla að nýsköpun og auknum tengslum atvinnulífs, stofnanna og háskóla. Styrkjum er úthlutað til kennara á háskólastigi, fyrirtækja, rannsóknastofnana eða einstaklinga sem teljast hafa sérþekkingu á ákveðnu sviði, sem og háskólanema. Nýsköpunarverkefnin eru gífurlega fjölbreytt og fer vinnan fram í öllum landshlutum.

Alls bárust 195 umsóknir fyrir sumarið 2008, en ákveðið var að styrkja 87 þeirra. Að verkefnunum störfuðu 99 nemendur í samtals 224 mannmánuði.

Árið 2008 var sjóðurinn fjármagnaður með framlögum frá ríki, Reykjavíkurborg,Framleiðnisjóði landbúnaðarins, Akureyrarbæ, Garðabæ og Kópavogsbæ.  

Sjóðurinn styrkist milli ára
Reykjavíkurborg hækkaði framlag sitt til Nýsköpunarsjóðs námsmanna úr 12 í 20 milljónir fyrir styrkárið 2009. Heildarfjármagn sjóðsins árið 2009 er því nærri fjórðungi hærra en árið 2008 (alls rúmlega 40 milljónir króna). Vegna þess atvinnuástands sem blasir við námsmönnum er umsjónarmönnum sjóðsins mikið gleðiefni að geta styrkt fleiri verkefni í sumar en í fyrra. Einnig hefur orðið sú breyting frá því í fyrra að háskólanemum í bæði grunn- og meistaranámi er heimilt að sækja um styrki úr sjóðnum.

Umsóknarfrestur fyrir styrkárið 2009 er mánudagurinn 9. mars, kl. 16.

Verðlaunin í ár
Nýsköpunarsjóður og Rannsóknamiðstöð Íslands (Rannís) gefa verðlaunin í ár. Verðlaunagripirnir eru sérhannaðir af Jónasi Braga glerlistamanni.

Dómnefndin
Sérstök dómnefnd valdi verkefnin fimm sem tilnefnd eru. Í dómnefndinni áttu sæti: Rósa Gunnarsdóttir, formaður (tilnefnd af menntamálaráðuneyti), Davíð Lúðvíksson (tilnefndur af Samtökum iðnaðarins), Kári Hólmar Ragnarsson (tilnefndur af Stúdentaráði Háskóla Íslands), Sigurður Snævarr (tilnefndur af Reykjavíkurborg) og Hallgrímur Jónasson (tilnefndur af Rannsóknamiðstöð Íslands).

Hugrún Lísa Heimisdóttir
Hugrún Lísa Heimisdóttir
Rannveig Sigríður Ragnarsdóttir
Rannveig Sigríður Ragnarsdóttir
Martin Ingi Sigurðsson
Martin Ingi Sigurðsson
Jóna Guðný Arthúrsdóttir
Jóna Guðný Arthúrsdóttir
Máney Sveinsdóttir
Máney Sveinsdóttir
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:
Nánar um málið
í Morgunblaðinu
Áskrifendur:

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka