Jarðskjálftahrinan undir Eyjafjallajökli tók kipp í gærkvöldi og hefur virknin verið viðvarandi síðan. Svo virðist sem upptök jarðskjálftanna séu á svipuðu dýpi og verið hefur, eða 7-10 km undir jöklinum. Frá miðnætti og til um kl. 10.45 í morgun voru jarðskjálftarnir orðnir um 700 talsins.
Sigþrúður Ármannsdóttir, landfræðingur hjá Veðurstofu Íslands, sagði í morgun að jarðskjálftavirknin væri enn stöðug og skjálftarnir litlir en að ekki gætti gosóróa enn sem komið er undir jöklinum.
Erfitt er að segja til um hvort miðja upptakanna sé að færast en líklega hefur hún færst aðeins til austurs. Þetta mun sjást betur þegar búið er að fara yfir jarðskjálftamælingarnar.
GPS mælir við Þorvaldseyri, sem mælir hreyfingu jarðskorpunnar, hefur færst um það bil 5 sentímetra til suðurs og nálægt þrjá sentímetra til vesturs frá áramótum. Hreyfingin til vesturs hefur að langmestu orðið frá því síðast í febrúar.