Vildi ræða við Geir - fékk samtal við Árna

Árni M. Mathiesen.
Árni M. Mathiesen.

Aðdraganda símtals Árna M. Mathiesen, fyrrverandi fjármálaráðherra, og Alistairs Darlings, fjármálaráðherra Breta, að morgni 7. október 2008, er lýst í skýrslu rannsóknarnefndar Alþingis.

Þetta samtal vakti mikla athygli á sínum tíma, enda birtist endurrit af því í heild í fjölmiðlum og Darling vísaði til þess þegar hann útskýrði fyrir breskri þingnefnd hvers vegna eignir Landsbankans hefðu verið frystar á grundvelli laga um varnir gegn hryðjuverkum.

Útibúi Landsbankans í London var lokað að kvöldi 6. október 2008 en á sama tíma var Alþingi að fjalla um neyðarlagafrumvarpið, sem samþykkt var síðar um kvöldið.

Sama kvöld settu bresk yfirvöld sig í samband við íslensk stjórnvöld. Kl. 21:08 þann dag sendi Sturla Sigurjónsson, starfsmaður forsætisráðuneytisins, Geir H. Haarde, forsætisráðherra, Baldri Guðlaugssyni, ráðuneytisstjóra  fjármálaráðuneytis, Bolla Þór Bollasyni, ráðuneytisstjóra forsætisráðuneytis, og Grétu Ingþórsdóttur, aðstoðarmanni forsætisráðherra, tölvubréf. Fyrirsögn bréfsins er „Bretar krefjast skýringa“. Þar segir að Sturla hafi verið í samskiptum við breska sendiherrann á Íslandi. Sturla hafi vísað til bréfs íslenskra stjórnvalda sem sent var breskum stjórnvöldum sl. helgi en breska sínum og að Bretar telji þörf á betri skýringum þetta kvöld þannig að hægt verði að undirbúa opnun markaða næsta morgun.

Breski sendiherrann hafi ítrekað að ná þyrfti tali af fjármálaráðherra eða ráðuneytisstjóra fjármálaráðuneytis sem fyrst og hafi sendiherrann sagst hafa um það bein fyrirmæli frá Alistair Darling, fjármálaráðherra Bretlands.

Í umræddu bréfi íslenskra stjórnvalda til Clive Maxwell, ráðuneytisstjóra breska fjármálaráðuneytisins, segir að ef þörf krefji muni ríkisstjórn Íslands styðja Tryggingarsjóð innstæðueigenda og fjárfesta við að afla nauðsynlegra fjármuna til að sjóðurinn geti staðið undir lágmarksbótafjárhæðinni ef til greiðslufalls Landsbankans og útibús fyrirtækisins í London komi.

Klukkan 21:38 þetta sama kvöld sendi Sturla annað tölvubréf til sama fólks og er  fyrirsögnin: „Bretar mjög óánægðir“. Í bréfinu segir að sendiherra Bretlands hafi hringt aftur og lagt áherslu á að Alistair Darling biði eftir „skýrslu sinni“ frá Reykjavík. Ef ekki fengjust fullnægjandi skýringar frá íslenskum stjórnvöldum sama kvöld yrði það túlkað með mjög neikvæðum hætti í London og myndi hafa alvarleg áhrif á „tvíhliða samskiptin“. Um trúnaðarbrest yrði að ræða.

Kl. 22:08  svaraði Baldur síðara bréfi Sturlu. Baldur segir að ef allt gengur eftir verði komin upp ný staða næsta morgun. Síðan segir hann: „Við erum ekki að  leita eftir neinni sérstakri umlíðan eða sveigjanleika Breta á þessum tímapunkti og því engin ástæða til þess að vera að gefa þeim færi á að kreista okkur  eitthvað meira út af innstæðutryggingum. Geturðu ekki fundið einhvern flöt á því að afsaka að það sé enginn ínáanlegur hér og nú?“

Kl. 22:12 svaraði Sturla og sagðist hafa haft samband við breska sendiherrann og látið vita að haft yrði samband næsta morgun. Sendiherrann hafi spurt hvort það yrði fyrir opnun markaða. Sturla hafi ekki getað lofað því. Að lokum spyr Sturla hvort Baldur muni hringja í sendiherrann.

Kl. 22:18 svaraði Baldur og segir: „Ég veit ekki hvort eða hvenær ég kemst til þess.“

Kl. 22:37 sendi Sturla Sigurjónsson þeim Geir, Bolla Þór og Grétu tölvubréf. Fyrirsögnin er: „Darling vill hringja í GHH“. Í bréfinu segir að breski sendiherrann hafi hringt aftur og að Darling vilji hringja í Geir H. Haarde snemma næsta morgun. Sturla spyr hvort vilji sé til að ræða við hann og hvaða númer hann eigi að gefa upp.

Kl. 22:44 svaraði Gréta og segir að eðlilegast sé að Darling ræði við Árna M. Mathiesen, fjármálaráðherra. Darling megi hringja í tiltekið símanúmer kl. 9:15 næsta morgun.

Kl. 23:18 um kvöldi voru neyðarlögin samþykkt á Alþingi og þegar morguninn eftir tók sérstök skilanefnd yfir rekstur Landsbankans á grundvelli laganna.  

Að morgni 7. október 2008 ræddust Darling og Árni við. 

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert