„Spurning hvernig við prjónum þetta“

Elías Jón Guðjónsson, aðstoðarmaður menntamálaráðherra.
Elías Jón Guðjónsson, aðstoðarmaður menntamálaráðherra. mbl.is

Aðstoðarmaður menntamálaráðherra hugðist leka efni blaðamannafundar ríkisstjórnarinnar um Magma-málið til ónefnds blaðamanns áður en fundurinn var haldinn í því skyni að reyna að hafa áhrif á fjölmiðlaumfjöllun um málið. Þessu er haldið fram á vef Grapevine með vísan til tölvupósts aðstoðarmannsins.

Segir á vef Grapevine að bréfið hafi verið sent til bandarísks blaðamanns fyrir slysni en höfundurinn er sagður Elías Jón Guðjónsson, aðstoðarmaður Katrínar Jakobsdóttur menntamálaráðherra.

Grapevine birtir bæði íslenska og enska útgáfu af tölvupóstinum en á vef blaðsins kemur fram að óljóst sé hver viðtakandinn var, þótt leiddar séu líkur að því að það hafi verið Steingrímur J. Sigfússon, fjármálaráðherra.

Í tölvupóstinum segir, að því er fram kemur á vef Grapevine:

„Það er spurning hvernig við prjónum þetta.

Doddi vill ólmur fá að skúbba einhverju fyrir fundinn og sé ég ákveðið tækifæri í því að láta það eftir honum.

Þannig getum við sett fókusinn á eitthvað eitt atriði sem við viljum að fjölmiðlar séu fókuseraðir á þegar þeir mæta á fundinn. Hér er tillaga að texta sem við getum sent honum:

„Efnahags- og viðskiptaráðherra mun ekki staðfesta lögmæti kaupa Magma á HS orku að svo stöddu líkt og meirihluti nefndar um erlenda fjárfestingu hefur lagt til við hann. Hann mun senda málsaðilum formlegt bréf þar sem hann tilkynir um að á vegum á vegum stjórnvalda sé að hefjast umfangsmikil vinna sem kunni að hafa áhrif á framtíðarstöðu opinberra jafnt sem einkaaðila á sviði orkumála og að ríkisstjórnin sé staðráðin í að vinda ofan af einkavæðingu innan orkugeirans og tryggja eftir megni að mikilvægustu orkufyrirtæki landsins séu á forræði opinberra aðila.

Hluti af þeirri vinnu sem stjórnvöld ætla að hrinda af stað er rannsókn á öllu einkavæðingarferli Hitaveitu Suðurnesja, síðar HS orku, þar sem lögmæti kaupa Magma sem erlends aðila verði meðal annars kannað. Einnig vinna við endurskoðun lagaumhverfis varðandi eignarhald á orkufyrirtækjum, þ.á.m. um takmarkanir á eignarhaldi einkaaðila.““

mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka