Björgunarsveitir á höfuðborgarsvæðinu voru kallaðar út rétt fyrir klukkan eitt í nótt vegna 17 ára pilts sem var villtur uppi við Vatnsenda. Drengurinn villtist í stórhríð en fannst í grennd við hesthúsahverfið Heimsenda. Hann var nokkuð kaldur en ómeiddur.
Pilturinn hafði farið í göngutúr frá Kórahverfi en eftir að hafa gengið í um klukkustund villtist hann. Pilturinn hringdi sjálfur eftir aðstoð og voru leitarhópar sendir á svæðið. Ekið var um með blikkandi ljós og sá pilturinn þau og gat gert vart við sig.
Um fjörutíu björgunarsveitarmenn voru komnir af stað þegar pilturinn fannst. Þetta kemur fram í tilkynningu frá Slysavarnafélaginu Landsbjörg.
Á meðan á leitinni að piltinum stóð fóru að berast beiðnir frá ökumönnum á höfuðborgarsvæðinu um aðstoð vegna ófærðar. Um klukkan tvö í nótt höfðu þegar um tuttugu ökumenn óskað eftir aðstoð, víðs vegar á höfuðborgarsvæðinu.