Vara við eiturgufum og vatnavöxtum

Hlaup er hafið úr vestari Skaftárkatlinum í Vatnajökli.
Hlaup er hafið úr vestari Skaftárkatlinum í Vatnajökli. mbl.is/Þorvaldur Örn Kristmundsson

Lögreglan á Hvolsvelli varar ferðamenn við því að fara að upptökum Skaftár vegna hugsanlegra eiturgufa en von er á hlaupi undan Skaftárjökli seint í kvöld eða nótt. Hlaup er hafið úr vestari Skaftárkatlinum í Vatnajökli. Frá því kl. 21 í gærkvöldi hefur ísskjálftavirkni sést á jarðskjálftamælum Veðurstofunnar á Grímsfjalli og Skrokköldu og Jökulheimum.

Sveinn Kristján Rúnarsson, yfirlögregluþjónn á Hvolsvelli, segir að lögreglan fylgist vel með gangi mála og sé stöðugu sambandi við vatnamælingamenn Veðurstofunnar. Hann segir ekki von á stóru hlaupi en að alltaf sé hætta á því að eiturgufur fylgi hlaupi í Skaftá og því hafi íbúar á svæðinu og ferðamenn, m.a. í Hólaskjóli, verið varaðir við því að fara upp að jökulsporðinum. „Það eru eiturgufurnar sem við óttumst helst en einnig fylgja þessu einhverjir vatnavextir,“ segir Sveinn.

Vatnamælar eru á svæðinu og er nú grannt fylgst með þeim. Lögreglan er ekki með sérstaka vakt við ána enda ekki von á hlaupinu fyrr en seint í kvöld eða nótt.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert
Loka