Starfshópur sem sett hefur saman aðgerðaáætlun til að fjölga nemum í leikskólakennaranámi leggur meðal annars til að ríkið felli tímabundið niður hluta námslána þeirra fyrir hvert ár sem þeir starfa í faginu í allt að fimm ár.
Í fréttaskýringu um þetta mál í Morgunblaðinu í dag segir Ingibjörg Kristleifsdóttir, formaður Félags stjórnenda leikskóla, ein þeirra sem áttu sæti í starfshópnum, að markmið áætlunarinnar um að 180 leikskólakennarar útskrifist á ári eftir 2020 og nýliðun standi undir endurnýjun starfsfólks árið 2050 sé í raun draumamarkmið.
„Við ætlum ekki að missa móðinn og lækka viðmið eða slá af kröfum,“ segir hún.
Frá árinu 2007 hefur nýnemum í leikskólakennaranámi fækkað um 74%. Árið 2010 voru leikskólakennarar aðeins í þriðjungi stöðugilda á leikskólum.