Aðalmeðferð máls yfir karlmanni á fertugsaldri, sem ákærður er m.a. fyrir líkamsárásir, fjölmörg brot gegn valdstjórninni, hylmingu og fíkniefnabrot hófst við héraðsdóm Reykjavíkur í morgun. Manninum er gefið að sök að hafa ítrekað hótað og ráðist á lögreglumenn við skyldustörf.
Í upphafi var lögð fram viðbótarkæra á hendur manninum vegna aksturs án ökuréttinda og fyrir að aka undir áhrifum. Sakborningur viðurkenndi að hafa ekið réttindalaus, en þvertók fyrir að hafa verið undir áhrifum. Bifreið hans hefði oltið, hann hefði komist í nokkuð uppnám við óhappið og þá fengið sér áfengi að drekka, enda nokkur tími liðið þar til lögregla kom á vettvang.
Við rannsókn fannst nokkuð áfengismagn í blóði hans, auk kannabisefna.
Sækjandi spurði sakborning hvort honum hefði tekist að drekka talsvert magn bjórs og hvítvíns, auk þess að hafa reykt kannabisefni, á einungis 10-15 mínútum og kvað hann já við því.
Þá var honum gefið að sök að hafa haft ýmsa stolna muni í vörslu sinni; þeirra á meðal veiðistöng og reiðhjól. Spurður að því hvers vegna munirnir hefðu verið í íbúð hans sagðist hann ekki geta gefið skýringu á því; ýmist fólk hefði verið í íbúðinni í hans óþökk og það hefði að öllum líkindum átt viðkomandi muni.
Einnig fannst stolin verkfærataska í íbúð mannsins. Hann sagðist hafa keypt hana á vefsíðunni bland.is. Spurður að því hvort hann hefði ekki talið neitt athugavert við að höggborvél sem í töskunni var hefði verið merkt tilteknu fyrirtæki sagðist hann ekki hafa haft neina ástæðu til að telja að um þýfi væri að ræða.
Þá var honum var gefið að sök að hafa ræktað um 35 kannabisplöntur og haft í fórum sínum kannabislauf og marijúana. Hann neitaði því og sagði efnin hafa verið í eigu annars manns sem hefði haft aðgang að íbúð sinni.
Honum var ennfremur gefið að sök að hafa ráðist á afgreiðslustúlku í verslun. Hann sagðist hafa ætlað að skila vörum sem hún hafi ekki viljað taka við. Þá hefði hann tekið tvær kókflöskur og ætlað að ganga með þær út. Stúlkan hefði gengið í veg fyrir hann og sagst ætla að hringa í lögreglu, hann hefði þá tekið um hendur hennar, en ekki hent henni upp við vegg eins og upp á hann hefði verið borið.
Þá var maðurinn ákærður fyrir að hafa haft hníf í fórum sér á Lebowsky bar. Hann hafði þá viðurkennt fyrir lögreglu að eiga hnífinn, en segist nú hafa fundið hann og segðist hafa ætlað að skila honum til lögreglu.
Ein ákæran varðar atvik er átti sér stað á lögreglustöð er hann var í gæslu lögreglu. Þar kýldi hann í gegnum glugga á hurð salernis, er honum var meinað að loka henni. Við það fóru glerbrot í augu varðstjóra. Sá bar vitni og sagðist hafa hlotið varanlega skaða af á auga og sjón. Hann sagðist sannfærður um að um viljaverk hefði verið að ræða.
Þá var maðurinn ákærður fyrir að hafa hrækt á lögreglumann sem var við skyldustörf. Maðurinn sagði lögreglumanninn hafa reynt að kæfa sig eftir að hafa sparkað niður allar hurðar á heimili sínu. Hann hefði þá hrækt á buxur lögreglumannsins, sem hefði þurrkað af þeim í andlit hans og síðan vafið borðdúk um andlit hans.
Manninum var ítrekað gefið að sök að hafa hótað og ráðist á lögreglumenn við skyldustörf. Samkvæmt framburðum vitna og málflutningi sækjanda hefur hann hótað allnokkrum lögreglumönnum lífláti og líkamsmeiðingum.
Hann sagði að lögregla hefði alloft tekið harkalega á sér og beitt sig óþarfa harðræði. Hugsanlega gæti hann hafa látið ýmis orð falla í hita leiksins í sumum tilvikanna, en sagðist þó ekki muna eftir því.
Einn þeirra lögreglumanna, sem báru vitni við málsmeðferðina, var spurður að því hvort hann tæki hótanirnar alvarlega. Hann sagðist að sjálfsögðu gera það. Fangavörður, sem bar vitni, sagði manninn hafa hótað sér alvarlega og að fyllsta ástæða væri til þess að taka slík orð alvarlega, ekki síst ef þau kæmu frá viðkomandi sakborningi.