Fimmtudagskvöldið 29. nóvember kl. 20 verður borgarafundur í safnaðarheimili Vídalínskirkju í Garðabæ. Fundarefni er verndun Gálgahrauns og áform um nýjan Álftanesveg í hrauninu.
Á fundinum munu jarðfræðingarnir Lovísa Ásbjörnsdóttir og Sigmundur Einarsson fjalla um Búrfellshraun og þann hluta þess sem kallast Gálgahraun. „Þessi hraun hafa einstakt útivistargildi innan byggðar á höfuðborgarsvæðinu og um Gálgahraun liggja nokkrar mjög fornar leiðir,“ segir í tilkynningu frá aðstandendum borgarafundarins.
Í Gálgahrauni og víðar í Búrfellshrauni átti Jóhannes S. Kjarval sér staði, þar sem mörg af hans hraunamálverkum urðu til. Um tengsl Kjarvals og hraunsins mun Ólafur Gíslason listfræðingur ræða á fundinum.
Gunnsteinn Ólafsson tónlistarmaður mun fjalla um Álftanesveginn, endurbætur á honum á núverandi stað og afleiðingar þess að leggja nýjan veg um Gálgahraunið.
Þá verða afhentar þúsundir undirskrifta, þar sem nýjum Álftanesvegi í hrauninu er mótmælt.
Fundarstjóri verður Eiður S. Guðnason, fyrrverandi umhverfisráðherra.
Hraunavinir eru umhverfissamtök í Garðabæ, Álftanesi og Hafnarfirði sem hafa það markmið að vernda þau fágætu umhverfisverðmæti, ekki síst hraunin sem þar er að finna. Undanfarin ár hefur félagið varað mjög við frekara raski í Gálgahrauni og Búrfellshrauni öllu og telur ákvörðun yfirvalda í Garðabæ með lagningu nýs Álftanesvegar, mikið og óbætanlegt umhverfisslys.
Mikill fjöldi fólks hefur mótmælt fyrirhuguðum Álftanesvegi með undirskriftum og göngum um hraunið. Markmið þessa borgarafundar er að sýna forráðamönnum Garðabæjar, Vegagerðarinnar og öðrum sem að málinu koma að íbúar viðkomandi sveitarfélaga og nærliggjandi svæða, sætta sig alls ekki við fyrirhugaða vegarlagningu, heldur vilja leita annarra leiða til að bæta samgöngur út á Álftanes, segir í tilkynningu frá Hraunavinum.
Um næstu áramót munu sveitarfélögin Garðabær og Álftanes sameinast. Þá mun gefast tækifæri að gera nýtt aðalskipulag fyrir sameinað sveitarfélag og breyta fyrri áformum um Álftanesveg.