Eigendur 60% landsréttinda á línuleið nýrrar Suðurnesjalínu hafa með samningum veitt heimild fyrir lagningu línunnar, samkvæmt upplýsingum frá Landsneti.
Viðræður standa enn yfir við eigendur um það bil 25% landsréttindanna. Landsnet hefur tilkynnt eigendum 15% landsréttinda um slit á viðræðum. Það er venjulega undanfari þess að óskað sé eftir heimild til eignarnáms.
Í umfjöllun um mál þetta í Morgunblaðinu í dag kemur fram, að Landsnet telur brýna þörf á að leggja strax nýja og öflugri Suðurnesjalínu, vegna þess álags sem er á gömlu línunni og aukningar á almennri notkun. Þegar framkvæmdir við virkjanir og stóriðju hefjist sé þörf fyrir aðra eins.