Ný áætlun um uppbyggingu lauga í Reykjavík

Lífsgæði borgarbúa, sérstaða Reykjavíkurborgar og tækifæri sem áfangastaður ferðamanna er leiðarljós í framtíðarsýn fyrir sundlaugarnar í Reykjavík til næstu 20 ára sem starfshópur innan Reykjavíkurborgar hefur nú skilað af sér og er til umfjöllunar í borgarkerfinu.

Starfshópurinn vill að hugað verði að nýjungum í nýtingu á heita vatninu til baða til dæmis með náttúrulaugum af ýmsu tagi, hafnarlaug, uppsprettum, sjósundsaðstöðu og fleiru. Þá verði unnin ítarleg rannsókn á lýðheilsugildi lauganna.

Horft er til stóraukinnar aðsóknar ferðamanna í laugarnar og vill starfshópurinn ná því marki að helmingur þeirra sem heimsækja Reykjavík fari í sund, en á liðnum árum hefur tæpur þriðjungur nýtt sér laugarnar. Þessu metnaðarfulla markmiði vill starfshópurinn ná með aukinni markaðsetningu og lagt er til að kynningarmál verði endurskoðuð í heild sinni.

Þjónustukannanir um venjur og ánægju gesta verða notaðar til að fylgjast með þróun.  Lagt er til að gjaldskrá fylgi verðlagsþróun og aðgangseyrir fjármagni um 70% af rekstri lauganna öðrum en fasteignakostnaði. Gætt verður áfram að afsláttarkjörum til fastagesta sundlauganna.

Uppbygging sundlauga í takt við þróun byggðar

Fjárfestingaráætlun er hluti af tillögum starfshópsins en framtíðarsýn hans felur í sér að Reykvíkingar og gestir borgarinnar njóti í sínu nærumhverfi þeirra lífsgæða sem sundlaugarnar bjóða.  Sundlaugarnar eigi að þróast og taka mið af þróun samfélagsins. Hópurinn telur að aðlaðandi sundlaugar séu lykillinn að uppbyggingu íbúðasvæða.

Fjárfestingaráætlun – tillaga hópsins:

  1. Viðbygging við Sundhöllina. 2013 – 2014
  2. Hverfislaug fyrir Grafarholt og Úlfarsárdal (kennslulaug í fyrstu en hverfislaug síðar). 2013-2015
  3. Endurnýjað laugarker í Laugardalslaug, jafnvel á nýjum stað. 2016-2017
  4. Hafnarlaug – almenningsstaður. Hugsanlega samrekstur með einkaaðila eða einkaframkvæmd. 2017-2018
  5. Innilaug við Vesturbæjarlaug. 2018-2019
  6. Fossvogslaug. 2020-2022
  7. Vatnsmýrarlaug. 2022-2024

Tillaga hópsins byggir á því mati að til skemmri tíma litið séu svæðin í nágrenni við Vesturbæjarlaug, Sundhöllina og Laugardalslaug líklegust til að vaxa. Þá muni, samkvæmt forsendum aðalskipulags,  fjölgun íbúa í Grafarvogi og Úlfarsárdal verða rúmlega þriðjungur allrar fólksfjölgunar.  Nauðsynlegt sé því að koma upp kennslulaug sem síðar gæti með viðbótum orðið að almenningslaug. Til lengri tíma litið fjölgar íbúum mest í nýju hverfi í Vatnsmýrinni þegar flugstarfsemi þar verður lögð af. Þar má gera ráð fyrir nýrri laug sem muni þjóna jafnframt stórum vinnustöðum á svæðinu, svo sem spítala og háskólum. Annað svæði sem gæti vaxið verulega til framtíðar er svæðið við Elliðaárvog.

Tillögur starfshópsins voru lagðar fram í borgarráði 31. janúar. Borgarráð vísað tillögunum til umsagnar umhverfis- og skipulagsráðs, menningar- og ferðamálaráðs og íþrótta- og tómstundaráðs. Einnig er óskað eftir umsögn stjórnar Faxaflóahafna um tillögur í skýrslunni að hafnarlaug.

Skýrsla starfshópsins

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert