Betur borgið utan ESB

Landsfundur Sjálfstæðisflokksins.
Landsfundur Sjálfstæðisflokksins. mbl.is/Árni Sæberg

Frjálsræði í viðskiptum og verslun, alþjóðleg samvinna og ábyrg öryggis- og varnarstefna eru þrjár meginstoðir í ályktun utanríkismálanefndar Sjálfstæðisflokksins. Þá ályktar nefndin að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins. 

Teitur Björn Einarsson kynnti á landsfundi Sjálfstæðisflokksins fyrir stundu drög að ályktun um utanríkismál sem nefndin afgreiddi í gær.

Að sögn Teits Björns byggjast tillögurnar á sömu stefnu og í síðustu ályktun landsfundar. „Það eru engar grundvallarbreytingar í þessum drögum,“ sagði Teitur Björn.

Áfram sé gert ráð fyrir því að meginstoðir utanríkisstefnunnar byggist á frjálsræði í viðskiptum og verslun, alþjóðlegri samvinnu og ábyrgri öryggis- og varnarstefnu.

Hugað að norðurslóðum 

Teitur Björn upplýsti jafnframt að í ályktun síðasta landsfundar hefði verið kafli um norðurslóðir en nefndin ákvað nú að það væri rétt að bæta þessu málefni við og taka það til sérstakrar skoðunar. Þannig sé gætt að þeim tækifærum sem breytingar á norðurslóðum feli í sér, þar með talið efnahagslegum tækifærum samfara nýtingu auðlinda. „Jafnframt þurfum við að geta brugðist við þeim ógnum sem þetta getur haft í för með sér, sérstaklega á sviði utanríkismála,“ sagði Teitur Björn.

Hann vék einnig að viðskiptasamningi ESB og Bandaríkjanna. Leggur nefndin til að Sjálfstæðisflokkurinn taki afstöðu til samningsins, sem geti reynst „gríðarlega mikilvægur“.  Ísland skuli ásamt EFTA-ríkjunum kanna hvort hægt sé að koma að því borði.

Þá skuli skoða að fella niður tolla frá ríkjum sem Ísland á fríverslunarsamninga við. Ennfremur styður nefndin tveggja ríkja lausn Ísraels og Palestínu og var samstaða um þetta atriði.

Geri hlé á aðildarviðræðum

Varðandi ESB og EES sagði Teitur Björn að „aðalatriðið [væri] að sú stefna sem mörkuð var á síðasta landsfundi [sé] óbreytt, við áréttum þá stefnu.“

Sem fyrr segir telur nefndin að hagsmunum Íslands sé betur borgið utan Evrópusambandsins. Áréttað er að gera skuli hlé á aðildarviðræðunum við Evrópusambandið og þær ekki hafnar að nýju nema það verði samþykkt í þjóðaratkvæðagreiðslu.

Þá upplýsti Teitur Björn að Kjartan Gunnarsson og Björn Bjarnason hefðu lagt fram bókun þar sem mótmælt er starfsemi Timo Summa, sendiherra ESB á Íslandi, og viðleitni hans til að hafa áhrif á íslensk stjórnmál. Samþykkti nefndin að lagt yrði til að kynningarskrifstofu ESB á Íslandi, Evrópustofu, yrði lokað. „Þessi viðbót var á endanum samþykkt,“ sagði Teitur Björn.

mbl.is
Fleira áhugavert
Fleira áhugavert