Þegar Afganinn Wali Safi kom hingað til lands í júní 2008 var andlegt ástand hans slæmt og það átti enn eftir að versna. Hann þjáðist af streitu og þunglyndi, ekki síst vegna nagandi óvissu um hvort hann yrði sendur aftur til Grikklands og þaðan aftur til Afganistans.
En þegar hann fékk dvalarleyfi af mannúðarástæðum á Íslandi árið 2010 birti skyndilega til, segir í fréttaskýringu í Morgunblaðinu í dag. „Eftir fjóra mánuði var ég hættur að smakka áfengi, ég hætti að reykja, ég hætti að nota neftóbak og ég gat hætt að taka lyfin,“ segir hann.
Morgunblaðið hitti Wali í gær í Salaskóla þar sem hann er skólaliði í fullu starfi. Hann sækir einnig íslenskunámskeið fjórum sinnum í viku, í tvo tíma í senn, og vonast til að geta farið á túlkanámskeið sem hefst í apríl en hann vill túlka úr pastún, móðurmáli sínu, og jafnvel fleiri tungumálum, s.s. dari, urdu og jafnvel grísku. Hann er greinilega mikill málamaður og blaðaviðtalið fer allt fram á íslensku.