Skipverjum bjargað frá borði

Kræklingavinnsluskipið Þórsnes II á strandstað í dag.
Kræklingavinnsluskipið Þórsnes II á strandstað í dag. Pétur Guðmundsson

Búið er að bjarga öllum skipverjum 130 tonna kræklingavinnsluskips sem strandaði við Skoreyjar norður af Stykkishólmi í morgun. Skipið er enn strand og verið er að meta næstu skref.

Jónas Guðmundsson hjá Landsbjörgu, segir að skipið hafi verið stærra en talið var út frá fyrstu upplýsingum sem bárust en 9 manns voru um borð. Skipið heitir Þórsnes II. og er gert út frá Stykkishólmi.

Nýttir voru svokallaðir ribbátar frá Stykkishólmi til björgunarinnar en slíkir bátar eru að sögn Jónasar hraðskreiðir og öruggir. Voru þeir fengnir að láni frá einkaaðilum.

Jónas segir að hratt og vel hafi gengið að koma skipverjum frá borði.

Tveir björgunarbátar eru enn á svæðinu, m.a. til vöktunar. Jónas bendir á að lífríkið í Breiðafirði sé mjög viðkvæmt og alltaf hætta á olíuleka þegar skip strandar. Hins vegar sé ekkert sem bendi til slíks leka á þessari stundu.

„Allir eru heilir á húfi,“ segir Jónas.

Frétt mbl.is: Skip strand með níu manns

Þórsnes II. SH-209.
Þórsnes II. SH-209. Af vef Skipaskrár
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert