Marglyttum í þúsundavís skolaði á land við Garðaholt í Garðabæ um helgina. Ingibjörg Magnúsdóttir íbúi í Garðabæ gekk fram á þær í fjörunni og hún segir það hafa verið ótrúlega sjón að sjá fjöruna þakta marglyttum.
Ástþór Gíslason, sjávarlíffræðingur hjá Hafrannsóknastofnun, segir að nú sé fjöldi marglytta í hafinu hér við land í hámarki, þær fjölgi sér síðsumars með kynlausri æxlun og geta því verið gríðarmargar og í stillum komi það fyrir að straumurinn skoli þeim á land.
Hann segir ekki vitað fyrir víst hvort marglyttum sé að fjölga hér við land þar sem kerfisbundnar rannsóknir á því hafi ekki verið gerðar en fyrr í sumar varð fólk vart við mikinn fjölda þeirra í Reykjavíkurhöfn.
Ástþór segir að marglyttur geti verið ertandi komist þær í tæri við fólk þar sem þær hafi brennifrumur sem þær noti til að lama bráð sína og því væri það engin óskastaða að vera í sjósundi og lenda í marglyttugeri, þótt hann efist um að það sé beinlínis hættulegt.