Ljósmynd Jóhanns Smára Karlssonar fær heldur betur nýstárlegan sýningarstað, en myndin „Open minded“ verður birt á 43 hæða skýjakljúfi í New York í Bandaríkjunum. Auk þess verður myndin sýnd í sérstökum sýningarsal listasamtakanna See.me sem standa að sýningunni.
„Öllum var opið að senda inn listaverkin sín, og svo voru valdir úr um 100 alþjóðlegir listamenn. Ég vissi hins vegar ekki, þegar ég sendi inn myndina að henni myndi verða varpað upp á skýjakljúf,“ segir Jóhann Smári.
Ljósmynd Jóhanns ber nafnið „Open minded,“ eða „opinn hugur“ og er hún tekin í Hvalfirðinum. „Ég tók myndina þarna í firðinum og svo sneri ég henni við 180 gráður, svo þú verður að vera með opinn hug þegar þú skoðar hana. Myndin er mjög grafísk og áberandi þannig að ég held hún eigi eftir að taka sig vel út.“
Búsáhaldabyltingin vinsæl á Ítalíu
Jóhann Smári er áhugaljósmyndari og keppti til að mynda í ljósmyndasamkeppni Íslands á Skjá einum. Þessa dagana er hann með mörg járn í eldinum.
„Mér hefur verið boðið til Rómar til þess að halda sýningu með mínum bestu ljósmyndum hinn 28. nóvember,“ segir Jóhann, en myndir sem hann tók í búsáhaldabyltingunni á sínum tíma vöktu athuga Ítalanna.
„Þeir virðast hafa sérstaklega mikinn áhuga á búsáhaldabyltingunni þarna á Ítalíu en það voru haldnar fjölmargar sýningar þar með ljósmyndum frá byltingunni árin 2009 og 2010,“ segir Jóhann en hann safnar nú styrkjum til þess að komast til Rómar.
Jóhann stundar nám í upplýsinga- og fjölmiðlafræði í Tækniskólanum og ætlar svo í ljósmyndun þar. „Ég er fæddur 1961 þannig að ég er kannski svolítið seint á ferðinni. En þetta er mjög gaman allt saman og það er margt að gerast hjá mér núna í ljósmynduninni,“ segir Jóhann Smári að lokum.
Uppfært kl. 21.33: Jóhann er ekki eini íslenski ljósmyndarinn sem fær mynd sinni varpað á háhýsi í New York í kvöld, því ljósmyndaranum Konráð Ragnarssyni hlotnast sami heiður.
Mynd hans „Lonely Tunnel“ verður varpað á 43. hæða skýjakljúf við 43-10 Crescent Street á Long Island í kvöld.