Lítið pláss fyrir sjálfsvirðingu

Fiskabúrið tekur hlutfallslega mikið pláss í þröngu herberginu en það …
Fiskabúrið tekur hlutfallslega mikið pláss í þröngu herberginu en það færir líf inn í herbergið og hugann út fyrir kuldalegt iðnaðarhverfið sem umlykur tilveruna í Dalshrauni.

„Allir sjá þetta sem tímabundna lausn, ég sá fyrir mér að vera hérna í tvo mánuði en maður festist hérna.“ Þetta segir 45 ára gamall verkamaður af austur-evrópskum uppruna sem hefur búið í iðnaðarhúsnæði í Dalshrauni í Hafnarfirði í þrjú ár. Hann segir viðráðanlegt verð leika þar stórt hlutverk en að fleira komi til. „Maður fær þetta líka á sálina, sem er mjög slæmt. Ef maður hefur ekki stjórn getur lífið hér breytt manni til hins verra, drykkja og slíkir hlutir spila þar inn í. Þegar félagslífið er ekkert breytist fólk, fæstir hér þrífa herbergi sín og bara tapa áttum. Fólk sem var áður nokkuð eðlilegt byrjar að drekka meira og missir stundum tökin á vinnunni í kjölfarið og ástandið verður að vítahring. Þetta hef ég séð hjá ungu íslensku fólki úr venjulegum fjölskyldum.“ 

Hann hefur búið í Dalshrauni frá því að hann missti íbúðina sína sem hann keypti nýja á Völlunum í Hafnarfirði skömmu fyrir hrun. Hann flutti til landsins árið 2004 og hefur fengist við verkamannastörf af ýmsu tagi t.d. málningarvinnu. Á árunum fyrir hrun gat hann unnið nánast eins mikið og hann vildi og gat verið með yfir 600.000 kr. á mánuði í laun þrátt fyrir að tímakaupið hafi ekki verið hátt en nú er staðan önnur og erfiðara að fá verkefni.

Á næstu dögum mun mbl.is fjalla um húsnæðisvanda hér á landi en þúsundir búa í óleyfilegum íbúðum í húsnæði sem skilgreint er sem atvinnuhúsnæði.

5500 krónur á fermetra

Fyrir 55 þúsund krónur á mánuði leigir hann 10 fermetra herbergi sem hann hefur gert eins vistlegt og hann getur. Fyrir jól setti hann upp stórt fiskabúr sem tekur hlutfallslega mikið pláss í þröngu herberginu en hann segir það færa líf inn í herbergið og hugann út fyrir kuldalegt iðnaðarhverfið sem umlykur tilveruna í Dalshrauni. „Það minnkar líkurnar á að maður rölti á einn af fjórum pöbbunum sem eru hér í göngufæri.“ 

Í húsnæðinu eru engir samningar gerðir einungis er nauðsynlegt er að borga tvo mánuði fram í tímann þar sem helmingurinn er tryggingargjald. Þar til fyrir stuttu gátu leigjendur einungis greitt leiguna í beinhörðum peningum sem öryggisvörður sá gjarnan um að koma og innheimta. Nú er þó hægt að borga á heimabankanum en leigjendur í húsnæðinu sem er ekki skráð sem íbúðarhúsnæði eiga ekki rétt á leigubótum.

Ekki boðlegt fyrir soninn

Ómögulegt er fyrir hann að taka á móti fjögurra ára gömlum syni sínum sem hann á með íslenskri konu og deilir forræði með í Dalshraunið, félagsmálayfirvöld taka strangt á því ef þau komast að því að börn dvelji í slíku húsnæði. Hann segist því eyða miklum tíma í að leita að viðráðanlegu húsnæði til að leigja svo að hann geti haft son sinn meira hjá sér en lítið sé í boði. 

Hann segir á reiki hversu margir búi í húsinu hverju sinni. Nú er búið í öllum herbergjunum og hann skýtur á að talan sé einhversstaðar á milli 20-30 manns. Gert er ráð fyrir tveimur íbúum í hverju herbergi af sama tagi og hann býr í en hann segir það vera óbærilega tilhugsun að deila svo litlu herbergi með öðrum. Einn íbúanna er með það innifalið í sínum samningi að sjá um þrif á klósettunum þremur sem íbúarnir deila og hann segir að það sé gott mál fyrir viðkomandi sem sé öryrki og því þá hafi hann eitthvað fyrir stafni. 

Áður fyrr hafi fyrirtæki á vegum eigandans séð um þrifin og þá var að ástandið mun verra, íbúarnir sem hafa búið lengst í Dalshrauninu er orðnir samtaka í að gera staðinn eins vistlegan og hægt er. Með tímanum hefur myndast kjarni fólks sem drekki saman kaffi á morgnana, láni hvor öðrum kannski smá pening öðru hverju og reyni að hjálpist að þegar á þarf að halda.

Komi eitthvað uppá eða hafa leigjendurnir eiginlega gefist upp á að reyna að fá eigandann til að koma því í lag og reyni frekar gera við það sem fer úrskeiðis sjálfir. Eigandi hússins kom leigjendum þó á óvart nýlega og keypti nýja þvottavél sem er þar auk þurrkara.

Einkalífið verður að bíða

Skemmtanahald er bannað í húsinu sem er afar hljóðbært. „Þetta eru þunnir veggir þar sem allt heyrist á milli. Ef einhver er að drekka fer það ekki fram hjá neinum, fólk heyrist detta í herbergjunum svo ég tali nú ekki um ef einhver kemur með konu hingað þá heyrist mjög vel allt sem þar fer fram.“

Þetta hefur stundum verið vandamál þegar fíklar og drykkjumenn hafa búið í húsinu og hann segist hafa þurft að eiga við fólk sem hefur verið viti sínu fjær sökum neyslu. „Það bankaði ungur íslenskur strákur á hurðina hjá mér sem mér skilst að eigi vel þekkta íslenska fjölskyldu, hann vildi fá setjast í stólinn hjá mér til að ræða málin því honum leið illa, hann var kviknakinn! Svo hefur fólk verið hér sofandi á gólfinu á ganginum.“

Þó ástandið sé nú betra en oft áður segir hann að ekki sé hægt að stóla á að svo verði áfram þar sem hann geri ráð fyrir að tveir nýir leigjendur flytji inn um mánaðarmótin og ekki sé á vísan að róa með hvernig þeir komi til með að vera í sambýli.

Erfiðustu vandamálin í sambýlinu segir hann koma upp í tengslum við unga Íslendinga á aldrinum 20-28 ára sem margir hverjir komi í Dalshraunið beint af Vogi og byrji aftur í neyslu eftir 2-3 vikur í húsinu.

Baráttan fyrir sjálfsvirðingunni

Þó íbúinn hafi fyrirvara á því stendur til að setja upp öryggismyndavélar við innganginn þar sem komið hefur fyrir að fólk  í vímu hafi verið ógnandi í húsinu og brotið hurðar. Þá hefur verið brotist inn í herbergin og hlutum á borð við tölvubúnað hefur verið stolið af herbergjunum enda eru margir sem hafa haft lykla að húsnæðinu í gegn um tíðina.

Hann segist vera búinn að lofa sjálfum sér að flytja úr herberginu á árinu. „Þetta er of mikið álag, hér eru engir möguleikar á félagslífi, hingað myndi engin bjóða neinum.“ Flesta vini sína hér á landi  segir hann vera íslenska og hann segist skammast sín fyrir að búa í Dalshrauni. „Hér er skítugt það er vond lykt hérna og vinir mínir sem af einhverjum ástæðum hafa þurft að koma við hrista höfuðið þegar þeir sjá aðstæðurnar.“  

Þrátt fyrir skömmina rígheldur hann í sjálfsvirðinguna og er stoltur af því að halda herberginu sínu hreinu og vel skipulögðu. Í skápunum er allt í röð og reglu, þrír hermannabúningar hanga þar og bera þess vitni að agann lærði hann á þremur árum í hernum í heimalandi sínu auk þess að hafa verið tvö ár í frönsku útlendingahersveitinni. Þá segir hann áhugamál halda geðheilsunni við og að tengjast ættingjum á heimaslóðum, í gegn um skype ræðir hann við foreldra sína í Póllandi og hann leikur tölvuleiki við eldri son sinn netinu. 

Margir íbúar hafa þó sagt skilið við sjálfsvirðinguna. „Sumir hérna sýnist mér ekkert fara í sturtu svo vikum eða mánuðum skiptir og lyktin er eftir því“ og hann tekur fram að það séu í flestum tilvikum Íslendingar. Sturtuna notar hann en helst bara eftir að hafa þrifið hana rækilega sjálfur enda sé aldrei að vita hvaða bakteríur sé að finna þar. 

Í húsnæðinu er hægt að leigja sér herbergi þar sem …
Í húsnæðinu er hægt að leigja sér herbergi þar sem fermetraverðið er í kring um 5500 kr. á mánuði.
Áhugamál halda geðheilsunni við og tengsl við ættingja á heimaslóðum …
Áhugamál halda geðheilsunni við og tengsl við ættingja á heimaslóðum sem prýða myndir á veggjunum.
Afar hljóðbært er á ganginum og þar er lítið rými …
Afar hljóðbært er á ganginum og þar er lítið rými fyrir einkalíf.
Íbúinn fer helst ekki í sturtuna nema að vera búinn …
Íbúinn fer helst ekki í sturtuna nema að vera búinn að þrífa hana vel.
Leigjendurnir hafa að mestu gefist upp á að tilkynna leigusalanum …
Leigjendurnir hafa að mestu gefist upp á að tilkynna leigusalanum um bilanir og gera við hluti sjálfir.
Eldhúsið er mikið notað af íbúum sem hafa dvalið lengi …
Eldhúsið er mikið notað af íbúum sem hafa dvalið lengi í Dalshrauni.
Dalshraunið er enginn staður fyrir börn og Bangsímon á veggnum …
Dalshraunið er enginn staður fyrir börn og Bangsímon á veggnum gegnir aðallega því hlutverki að minna á soninn.
Vandamálið er ekki nýtt af nálinni, þessi frétt birtist fyrir …
Vandamálið er ekki nýtt af nálinni, þessi frétt birtist fyrir 10 árum síðan.
mbl.is

Bloggað um fréttina

Fleira áhugavert
Fleira áhugavert