„Ég var lengi andvaka í nótt af gleði og hamingju. Ég lá bara í rúminu og fór að hugsa um framtíðina með bros á vör,“ segir Lika Korinteli, georgísk kona sem hefur loks fengið dvalarleyfi á grundvelli mannúðarsjónarmiða hér á landi eftir langa baráttu.
Lika segir erfitt að tjá tilfinningar sínar með orðum. „Þakklæti er mér efst í huga núna. Ég hef beðið mjög lengi eftir þessu en verð að fá að þakka þeim sem hafa hjálpað mér, og raunar Íslendingum öllum. Nú er ég orðin eins og allir hinir Íslendingarnir,“ segir Lika glöð. Hún segist hafa haft jákvæðni að leiðarljósi. „Ég kom hingað til lands frá landi þar sem ég óttaðist um líf mitt.
Í meira en tuttugu ár hef ég verið í erfiðleikum. Hér er hins vegar allt rólegt og ég get verið jákvæð og unnið mína vinnu eins og aðrir. Íslendingar eru heppnir því þeir hafa marga möguleika í lífinu og geta elt drauma sína.“
Lika fagnar áfanganum innilega nú um helgina. Í dag yfir kaffibolla með vinunum og á morgun ætlar hún út í náttúruna. „Ef snjórinn stöðvar mig ekki þá ætla ég að kíkja út á morgun. Ég elska að sitja og horfa á fjöllin og náttúruna í friði,“ segir Lika að lokum.