Leit sprengjusveitar Landhelgisgæslu Íslands að sprengju í flugvél WOW air á Keflavíkurflugvelli er að ljúka. Að sögn Sigríðar Bjarkar Guðjónsdóttur, lögreglustjóra á Suðurnesjum, hefur engin sprengja fundist. Finnist ekkert í síðustu töskunum sem verið er að gegnumlýsa verður leit blásin af.
Þá stendur hins vegar eftir að rannsaka málið og segir Sigríður Björk að rannsókn sé þegar hafin. Ljóst er að sprengjuhótun barst þjónustveri WOW air eftir hádegið í dag og að um Íslending sé að ræða. Slíkar hótanir eru teknar afar alvarlega.
Flugvél WOW var að koma frá Gatwick í London og lenti á Keflavíkurflugvelli, samkvæmt áætlun, klukkan 14:14. Um borð voru 143 farþegar og sjö í áhöfn. Allir voru fluttir frá flugvélinni í hasti eftir lendingu og fluttir í Leifsstöð. Þar var boðið upp á áfallahjálp.
Tíu sjálfboðaliðar Rauða krossins á Suðurnesjum veittu farþegum áfallahjálp vegna sprengjuhótunarinnar sem barst WOW flugfélaginu eftir flugtak vélar í áætlunarflugi frá Gatwick fyrr í dag.
Áfallahjálparteymi Rauða krossins á Suðurnesjum er sérþjálfað til að bregðast við slíkum aðstæðum, og voru sjálfboðaliðarnir mættir í flugstöð Leifs Eiríkssonar innan 10 mínútna.
Rauða krossinn bregst við og veitir áfallahjálp við fjölbreyttum atburðum og vegna náttúruhamfara, segir í tilkynningu frá Rauða krossinum.
Samkvæmt upplýsingum frá Landhelgisgæslunni voru tvær þyrluáhafnir settar í viðbragsstöðu þegar tilkynning um hótunina barst. Sprengjusveit Landhelgisgæslu Íslands leitaði að sprengju um borð í flugvélinni. Þá fylgdist stjórnstöð Landhelgisgæslunnar með vélinni þar til hún lenti á flugvellinum.
Frétt mbl.is: Sagði sprengju um borð í vél WOW