Þjónustuveri WOW air barst sprengjuhótun eftir hádegið í dag. Greint var frá því að sprengja væri um borð í flugvél flugfélagsins sem var á leiðinni frá Gatwick í London á leið til Íslands. Vélin var komin það langt á veg að henni var lent á Keflavíkurflugvelli. Leit að sprengjunni stendur yfir.
Samkvæmt upplýsingum frá WOW var öllum 145 farþegum komið frá borði og ekið með þá frá flugvélinni og að flugstöð með rútum. Viðbragðsteymi veitti þeim farþegum áfallahjálp sem vildu. Farþegar fá farangur sinn þegar búið er að gegnumlýsa hann og ganga úr skugga um að ekki leynist sprengja í honum.
Sprengjusveit Landhelgisgæslu Íslands leitar að sprengju um borð í flugvélinni.
Neyðaráætlun vegna flugverndar var virkjuð, bæði á Suðurnesjum og í Samhæfingarstöð í Skógarhlíð, vegna sprengjuhótunarinnar. Vélin lenti á Keflavíkurflugvelli, samkvæmt áætlun, klukkan 14:14. Um borð voru 143 farþegar og sjö í áhöfn, segir í frétt frá almannavarnadeild ríkislögreglustjóra.
Allir farþegar eru komnir frá borði og stendur yfir leit í vélinni. Skúli Jónsson, aðstoðaryfirlögregluþjónn hjá lögreglustjóranum á Suðurnesjum, var aðgerðarstjóri í þessari aðgerð.